Innlent

Segist vera með hreina samvisku í sænskum spjallþætti

Fyrrum forsætisráðherrann Geir H. Haarde neitaði í gær að gangast við ábyrgð vegna bankahrunsins á Íslandi í viðtali í sænska skemmtiþættinum Skavlan. Spjallþátturinn Skavlan er sá vinsælasti í norsku og sænsku sjónvarpi en þáttastjórnandinn, Fredrik Skavlan gekk hart að Geir vegna fjármálahrunsins hér á landi. Geir sagðist vera með hreina samvisku.

Með Geir í þættinum voru meðal annars evróvisjónstjarnan Alexander Rybak sem byrjaði þáttinn á hressilegu fiðlustefi. Þá var einnig rússneski skáksnillingurinn Gary Kasparov einnig í þættinum.

Viðtal Skavlan við Geir var nokkuð dramatískt. Undir því voru spilaðar upptökur frá búsáhaldabyltingunni í janúar. Geir sagðist vera með hreina samvisku en viðurkenndi að ríkisstjórn Íslands hefði átt að takmarka umsvif bankanna. Þá sagði hann að það hefði átt að efla Fjármálaeftirlitið sem hafði enga burði til þess að fylgjast með stóru bönkunum.

Geir sagðist viðurkenna að ríkisstjórn hans hefði ekki brugðist rétt við í einu og öllu. Aftur lagði Geir svo áherslu á að það væri heimskreppa og íslensku bankarnir hefðu farið illa út úr henni þar sem þeir voru gríðarlega skuldsettir þegar hún skall á með falli Lehman bræðra.

Talið er að 2-3 milljónir manna horfði á þátt Skavlan vikulega. Þátturinn í gær fékk þó slaka dóma gagnrýnanda samkvæmt fréttastofu Ríkisútvarpsins. Menn viðurkenndu hinsvegar að viðtalið við Geir hefði verið fjörugt.

Hér má horfa á þáttinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×