Sport

Ákvörðun að tryggja Wimbledon-mótið fyrir 17 árum reyndist gæfuspor

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Novak Djokovic og Roger Federer mættust í úrslitum einliðaleiks karla á Wimbledon í fyrra.
Novak Djokovic og Roger Federer mættust í úrslitum einliðaleiks karla á Wimbledon í fyrra. EPA-EFE/NIC BOTHMA

Wimbledon, elsta og þekktasta risamótið í tennis, var líkt og öðrum íþróttaviðburðum um heim allan aflýst vegna kórónufaraldursins. Skipuleggjendur mótsins munu hins vegar ekki tapa of miklum fjármunum þökk sé tryggingum sem þeir hófu að greiða fyrir 17 árum síðan.

Samkvæmt frétt Forbes hefur All England Lawn tennissambandið, sem skipuleggur Wimbledon-mótið, greitt um það bil tvær milljónir bandaríkjadala, eða tæplega 288 milljónir íslenskra króna, í „heimsfaraldurs“ tryggingu síðustu 17 ár.

Sú trygging tryggir sambandinu rúmar 141 milljón bandaríkjadala eða 20 milljarða íslenskra króna. Er það tæplega helmingur þeirra tekna sem mótið aflar ár hvert. 

Þannig að þó svo að sambandið verði af töluverðum fjármunum þá mun þessi ótrúlega ákvörðun að tryggja mótið fyrir alheimsfaraldri fyrir 17 árum síðan skila dágóðri summu í kassann.

Wimbledon átti að fara fram frá 29. júní til 12. júlí en var á endanum aflýst sökum kórónufaraldursins. Er það í fyrsta skipti síðan í síðari heimsstyrjöldinni sem mótinu er aflýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×