Fótbolti

Grímuklæddir stuðningsmenn brutust inn í klefann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heimavöllur Huracana.
Heimavöllur Huracana.
Tugir stuðningsmanna argentínska knattspyrnuliðsins Huracan brutust inn í klefa liðsins eftir að liðið datt út úr argentínska bikarnum á miðvikudagskvöld.

Stuðningsmennirnir höfðu í hótunum við leikmennina, stálu eigum þeirra og ollu skemmdum á bílum þeirra. Huracan spilar í næstefstu deild í Argentínu en liðið tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Godoy Cruz sem leikur í efstu deild.

„Við vorum í sturtu eftir æfingu á fimmtudeginum þegar grímuklæddir stuðningsmenn óðu inn í búningsklefann og höfðu í hótunum við leikmennina," segir þjálfarinn Jose Maria Llop við BBC. Hann segir að ráðist hafi verið á suma leikmenn liðsins.

„Þegar við yfirgáfum leikvanginn komumst við að því að búið var að valda skemmdum á átta bílum," bætti hann við. Forseti félagsins staðfesti að stuðningsmennirnir komu í tveimur rútum.

„Það væri ekki hægt að réttlæta hegðun þeirra þótt við hefðum tapað 15-0," sagði Alejandro Nadur, forseti félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×