Lífið

Tekur átta vikna gamla dóttur með á æfingar

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Þórunn Arna Kristjánsdóttir Fréttablaðið/GVA
Þórunn Arna Kristjánsdóttir stígur á svið í hlutverki Litla prinsins í Kúlunni í dag. Hún hefur átta vikna gamla dóttur sína með sér á æfingar og skýst til að gefa brjóst í pásum. Litli prinsinn verður síðasta hlutverk hennar í Þjóðleikhúsinu því hún er komin á samning hjá Borgarleikhúsinu þar sem hún byrjar í haust. 

Þórunn tekur á móti mér með nýfædda dótturina í fanginu og meðan við spjöllum saman gefur hún brjóst og vaggar litlunni í svefn. Hún er að frumsýna í dag þótt dóttirin sé ekki nema átta vikna og eðlilegt að sú spurning vakni hvort leikkonur fái ekki fæðingarorlof eins og aðrar konur.

„Jú, jú, ef þær vilja. Mig bara langaði að takast á við þetta verkefni og gerði sérstakan samning við Þjóðleikhúsið um það. Við æfðum á meðan ég var ólétt, svo fór ég í smá fæðingarorlof og undanfarnar tvær vikur höfum við bara verið að fínpússa og leggja lokahöndina á sýninguna.“

En er ekkert erfitt að fara að vinna frá svona nýfæddu kríli?

„Nei, nei, hún kemur bara með mér á æfingar og í öllum pásum fer ég fram, dáist að henni og gef henni brjóst.“



Hollt að breyta til


Fram kom í vikunni að Þórunn hefur skrifað undir samning við Borgarleikhúsið og hefur þar störf í haust. Hún hefur verið fastráðin við Þjóðleikhúsið síðan hún útskrifaðist, hvers vegna er hún að skipta um vinnustað?

„Það var bara kominn tími til að breyta til, ég held það sé nauðsynlegt fyrir alla. Ekki það að ég kveð Þjóðleikhúsið með söknuð í hjarta því það hefur verið ótrúlega gaman að vinna þar þessi fjögur ár. En það er svo auðvelt að festast í einhverju fari og nauðsynleg áskorun að hreyfa sig, vinna með nýju fólki á nýjum vettvangi þannig að ég er rosalega spennt og hlakka til.“

Hún vill ekki gefa upp hvaða verkefni verði hennar fyrsta í Borgarleikhúsinu, en lofar að það verði spennandi og ekki barnasýning.

„Verkefnin skipta auðvitað máli en það er samt fyrst og fremst fólkið sem maður er að vinna með sem ræður því hvort það er gaman að vera með í einhverri sýningu. Að leika í Macbeth var til dæmis eitthvað það skemmtilegasta og lærdómsríkasta sem ég hef gert, þótt ég væri bara með örfáar setningar. Það var svo frábær leikstjóri, frábær leikhópur og skemmtileg vinna.“

Gat ekki gert upp á milli



Þórunn er fædd og uppalin á Ísafirði og byrjaði að leika og syngja þar sjö ára gömul. Hún segist ekki hafa verið viss um hvort hún vildi verða leikkona eða söngkona þannig að hún sótti bæði um í söng- og leikaranámi við Listaháskólann og komst inn í söngnámið.

„Ég hafði stóra söngkonudrauma þegar ég var lítil og gat bara ekki gert upp á milli söngsins og leiksins. Þannig að ég var í tónlistardeild LHÍ í þrjú ár og útskrifaðist þaðan sem söngkona. Hins vegar sannfærðist ég um það í því námi að söngkonuferillinn heillaði mig ekkert svakalega mikið. Þú ert miklu meira einn að vinna að þínu í tónlistinni á meðan þú ert alltaf að vinna með fullt af fólki í leikhúsinu. Það finnst mér svo gefandi. Ég hafði heldur ekki agann í það að vera ein inni í æfingaherbergi endalaust. Svo ég sótti um í leiklistardeildinni og var í LHÍ í fjögur ár í viðbót til að verða leikkona.“

Þótt Þórunn hafi ekki gert sönginn að aðalstarfi þá er hún ennþá virk á því sviði og mun meðal annars troða upp með hljómsveit Skúla mennska á Aldrei fór ég suður um páskana.

„Við höfum verið að vinna svolítið saman og Skúli er rosalega duglegur að draga mig með sér í verkefni. Hann er svo skemmtilegt tónskáld og textahöfundur, það skiptir mig miklu máli. Mér finnst ekkert endilega skipta máli að söngurinn sé fullkominn heldur er það hvernig fólk kemur textanum til skila sem kveikir í mér.“

Listin í genunum



Þórunn þakkar áhugann á söng og leiklist alfarið því að hafa alist upp á Ísafirði. Þar gekk hún í Tónlistarskólann, lærði á fiðlu og píanó auk söngsins og tók þátt í leiksýningum Litla leikklúbbsins. Hún er þó eini meðlimur fjölskyldunnar sem hefur farið út á listabrautina. 

„Ég held að ef þú býrð á Ísafirði þá smitistu ósjálfrátt af menningunni þar. Tónlistarmenningin er auðvitað rosalega sterk en það er leiklistin líka. Mamma og pabbi voru samt ekki tónlistar- eða leiklistarfólk, höfðu bara brennandi áhuga á að njóta þessara lista, og hvorugt systkina minna hefur farið út á listabrautina. Mamma segir reyndar að þetta sé í genunum og komi úr móðurfjölskyldunni hennar. Arngrímur málari var langalangafi minn og ég heiti í höfuðið á honum og Þórunni konu hans. Hún var mikil söngkona og allar hennar systur þannig að þessi baktería hefur alltaf verið í ættinni, þótt fæstir hafi fylgt henni alla leið, enda fá tækifæri til þess á þeim tíma. Það þótti nógu mikið flipp hjá Þórunni langalangömmu minni sem var prestsdóttir að giftast málara.“

Þórunn segist aldrei munu sjá eftir því að hafa látið bakteríuna heltaka sig og gert listina að ævistarfi, hana hafi bara aldrei langað að gera neitt annað.

„Ég veit auðvitað að ég verð aldrei rík af þessu, enda langar mig ekkert til þess. Það fylgir þessu starfi lítið öryggi og þótt ég hafi verið að skrifa undir samning í Borgarleikhúsinu fyrir næsta ár þá er engin trygging fyrir því að ég hafi vinnu næsta leikár þar á eftir. Ég var ótrúlega heppin að fá samning strax efir útskrift og er þakklát fyrir það. Þess vegna reyni ég alltaf að gera það sem ég geri eins vel og ég get og taka aldrei neinu sem gefnu.“

Langar í eitthvað fullorðins



Eitt af fyrstu hlutverkum Þórunnar eftir útskrift úr Listaháskólanum var prinsessan á Bessastöðum í samnefndu leikriti. Síðan hefur hún leikið í ýmsum barnasýningum og þá oftast leikið börn.

Er hún ekkert hrædd um að festast í barnahlutverkunum?

„Það er nú bara þannig að þegar maður hefur barnalega rödd og er undir einum og sextíu á hæð þá er manni ósjálfrátt kastað í barnahlutverk. Það hefur auðvitað bæði kosti og galla, en kostirnir eru miklu fleiri. Þetta er samt aðeins að breytast, enda er ég orðin þrítug, en ég hef samt fengið ótrúlega mikið að gera einmitt af því að ég er svona lítil. Það er gaman að hafa möguleikann á því að geta leikið allt frá börnum og upp úr en auðvitað þyrstir mig núna í að fara að gera meira af fullorðins hlutum. Mér finnst samt ofsalega skemmtilegt að leika fyrir börn og mikilvægt að maður vandi sig við það og líti ekki á það sem eitthvað annars flokks.“

Allir græða



Sambýlismaður og barnsfaðir Þórunnar er Vignir Rafn Valþórsson, leikari og leikstjóri, sem hefur verið að hasla sér völl í leiklistinni í vetur.

Var ekkert erfitt að taka þá ákvörðun að fara út í barneignir núna þegar ferill beggja er að komast á flug?

„Ég held það sé enginn réttur eða rangur tími til að eignast barn. Þetta var góð ákvörðun og rétt og það kemur mér á óvart hvað mér finnst svakalega gaman að vera mamma. Það er æðislegt. Ég held það þurfi ekkert að trufla ferilinn. Maður hefur val um það hversu mikið maður flækir líf sitt og mér finnst best að hafa hlutina einfalda og búa ekki til vandamál fyrirfram. Það var brött ákvörðun að fara að sýna Litla prinsinn svona stuttu eftir fæðinguna og margir eru mjög hissa á mér, en eftir frumsýningu sýnum við bara um helgar og barnið fær ánægðari mömmu sem er að gera eitthvað sem henni finnst skemmtilegt, þannig að ég held að allir græði. Auðvitað er þetta alltaf púsluspil þar sem vinnutími leikara er aðallega á kvöldin alla jafna, en þessi stelpa á frábæran pabba, ömmur og afa, frænkur og frændur svo það væsir alls ekkert um hana á meðan mamma er að vinna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×