Paolo Di Canio segist eiga sér þann draum að verða knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni. Hans æðsta ósk er að taka við West Ham en sem leikmaður gerði hann garðinn frægan hjá liðinu.
„Ég náði mér í þjálfararéttindi síðasta sumar þar sem stefna mín er að þjálfar í framtíðinni. Draumur minn er að snúa aftur til Englands því ástríðan þar fyrir fótbolta er einstök," sagði Di Canio.
„Ég geri þetta samt með opnum huga. Kannski þarf ég að gera eitthvað annað áður en ég fæ tækifæri á Englandi. Hjarta mitt slær enn með West Ham," sagði Di Canio sem lék einnig með Celtic, Sheffield Wednesday og Charlton á Bretlandseyjum.