Enski kantmaðurinn Tom Ince, sonur Paul Ince, hefur ákveðið að hafna tilboði Inter Milan og ætlar hann að leika í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Ince hefur verið í viðræðum við Inter ásamt því að vera orðaður við olíuveldið Monaco. Ince ferðaðist með fjölskyldu sinni til Mílanó á dögunum til þess að fara í viðræður en þær gengu ekki upp.
Kantmaðurinn mun því ekki feta í spor föður síns sem lék með Inter á sínum tíma. Hann hefur ákveðið þess í stað að halda ferlinum áfram á Englandi.
„Eftir langar viðræður hef ég tekið ákvörðun um að halda ferli mínum áfram á Englandi. Ég er stoltur af því að lið út um alla Evrópu sýndu mér áhuga en á þessum tímapunkti tel ég ferli mínum best borgið hér á Englandi,“ sagði Ince.
