Innlent

Birna Sif Bjarnadóttir er látin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birna Sif Bjarnadóttir fæddist þann 2. september árið 1981.
Birna Sif Bjarnadóttir fæddist þann 2. september árið 1981.
Birna Sif Bjarnadóttir, skólastjóri Ölduselsskóla í Breiðholti í Reykjavík, er látin. Birna Sif varð bráðkvödd á heimili sínu fimmtudaginn 27. júní aðeins 37 ára gömul. Mbl.is greinir frá.

Birna Sif starfaði í um tíu ár sem grunnskólakennari við Ölduselsskóla. Hún var deildarstjóri einn vetur við Flataskóla í Garðabæ og gegndi svo stöðu aðstoðarskólastjóra í Breiðholtsskóla einn vetur þar sem hún leysti skólastjóra reglulega af. Hún var svo ráðin skólastjóri Ölduselsskóla sumarið 2018.

Eftirlifandi eiginmaður Birnu er Bjarki Þórarinsson byggingartæknifræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti. Þau eignuðust þrjár dætur fæddar 2008, 2011 og 2015.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík er einn fjölmargra sem minnast Birnu Sifjar.

„Birna hafði vakið athygli fyrir að takast á við krefjandi verkefni og æ stærra hlutverk í skólamálum borgarinnar og skaraði fram úr fyrir alúð sína og metnað. Dauði hennar er öllum harmafregn, samstarfsfólki og nemendum, en hugurinn er ekki síst hjá eiginmanni hennar og börnum, fjölskyldu og vinum. Ég votta þeim öllum mína dýpstu og innilegustu samúð. Blessuð sé minning Birnu Sifjar Bjarnadóttur.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.