Leikarnir voru fjölmennasti íþróttaviðburður sem haldin verður í heiminum í ár, það tóku um 7500 keppendur frá 190 löndum þátt.
Íslensku keppendurnir kepptu í tíu greinum á mótinu og röðuðu inn verðlaunum. Alls komu átta gullverðlaun, 14 silfur og 12 bronsverðlaun í hús.
Frjálsíþróttafólkið var þar iðið við kolann í verðlaunasöfnun. Aníta Ósk Hrafnsdóttir fékk gullverðlaun í kúluvarpi og silfur í langstökki. Fannar Logi Jóhannesson fékk gull í langstökki og brons í 100 metra hlaupi.

Það kom einnig nóg af verðlaunum úr sundlauginni. Bára Sif Ólafsdóttir fékk gullverðlaun í 100m baksundi og silfur í 100m skriðsundi.
Hjalti Guðmundsson fékk gull í 100m skriðsundi og silfur í 50m baksundi. Róbert Alexander Erwin tók brons í 100m skriðsundi og Arndís Atladóttir fékk brons í 50m bringusundi.
Ásta Hlöðversdóttir fékk gullverðlaun í sínum flokki í einstaklingskeppni í keilu. Hún bætti við bronsverðlaunum í tvímenningskeppni en þar keppti hún með Gabríellu Oddrúnu Oddsdóttur.
Einar Kári Guðmundsson og Haukur Guðmundsson kepptu einnig fyrir Ísland í keilunni en hvorugur náði að komast á verðlaunapall.
Þrír kylfingar voru í íslenska hópnum og þar gerði Ásmundur Þór Ásmundsson best en hann nældi í silfurverðlaun á mótinu. Elín Fanney Ólafsdóttir og Pálmi Þór Pálmason voru bæði hársbreidd frá því að lenda á verðlaunapalli.
Elín Fanney lenti í því að snúa sig illa á ökkla eftir þriðja hringinn af fjórum en harkaði þó í gegnum fjórða hringinn og endaði í fjórða sæti.

Ísland sendi í fyrsta skipti til leiks keppendur í kraftlyftingum kvenna. Verðlaun voru veitt bæði fyrir hverja grein sem og samanlagt og þær Valdís Hrönn Jónsdóttir og María Sigurjónsdóttir sönkuðu að sér verðlaunum.
Valdís fékk brons í réttstöðu og hnébeygju en varð fjórða í bekkpressu. María vann gullið í réttstöu og silfur í bæði hnébeygju og bekkpressu. Samanlagt varð Valdís í fjórða sæti en María fékk silfur.

Það var ekki að sjá að þær væru að gera þetta í fyrsta skipti, Arna fékk gull í þrepi 1 og Hekla silfurverðlaun í þrepi 2.
Fjórir íslenskir keppendur kepptu í áhaldafimleikum. María Ragnarsdóttir fékk brons á gólfi en varð fjórða á hinum áhöldunum þremur og fjórða samanlagt. Michaela Regan Kolosov fékk silfur á gólfi og brons á jafnvægisslá en varð þrátt fyrir það fimmta samanlagt.
Unnar Ingi Ingólfsson gerði sér lítið fyrir og hreppti gull á stökki. Hann bætti við bronsverðlaunum á hringjum. Magnús Orri Arnarson náði bestum árangri á tvíslá, þar varð hann fjórði.