Steindi er hvað þekktastur fyrir grín og glens. Hann gerði garðinn frægan á sínum tíma með tímamótasketsaþáttunum Steindinn okkar. Eins hefur hann verið viðriðinn framleiðslu á þáttum á borð við Steypustöðinni og Draumunum, auk þess sem hann er einn þriggja stjórnenda í útvarpsþættinum FM95BLÖ á FM957.
Þættirnir eru að upplagi viðtals- og heimildaþættir. Fjalla þættirnir um venjulegt fólk á Íslandi, eins og Steindi sagði sjálfur í samtali við Vísi.
„Við tölum við bændur, mjólkurfræðinga, aukaleikara og fleira,“ segir Steindi sem segir það hafa komið sér rækilega á óvart hversu erfitt reyndist að taka venjuleg viðtöl.
Þáttunum er leikstýrt af Gauki Úlfarssyni sem hefur getið sér gott orð í bransanum. Hefur hann meðal annars leikstýrt heimildamyndinni Gnarr, sem fjallar eins og nafnið gefur til kynna um grínistann ástsæla og fyrrverandi borgarstjórann Jón Gnarr.
Þættirnir rúmt ár í vinnslu
Steindi segir þá félaga hafa unnið að þáttunum í rúmlega eitt ár.
Hann segist eiga erfitt með að koma efnistökum þáttanna í orð og það sé virkilega erfitt að útskýra hvað þeir ganga út á.
„Þetta er eiginlega bara ferðalag og ég man ekki eftir því að hafa verið svona spenntur fyrir sjónvarpsseríu. Það er mikil vinna á bak við hana og stórt hjarta,“ segir Steinþór.
„Við lofum mjög frumlegri og öðruvísi seríu.“
Sjón er sögu ríkari en stikluna, sem er stórskemmtileg og lofar virkilega góðu, má sjá hér að neðan.