Erlent

Al­ríkis­lög­regla Rúss­lands leitar á skrif­stofu Naval­ny

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Húsleitin á skrifstofu Navalny var gerð í Moskvu í dag.
Húsleitin á skrifstofu Navalny var gerð í Moskvu í dag. epa/SERGEI ILNITSKY

Rússnesk lögregluyfirvöld gerðu húsleit á skrifstofu Alexei Navalny, eins helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar þar í landi, í Moskvu í dag. Dyrnar að skrifstofunni voru brotnar niður til að lögreglan kæmist inn og Navalny var dreginn út með valdi áður en lögreglan lagði hald á raftæki skrifstofunnar. Frá þessu er greint á vef fréttastofu Reuters.

Húsleitin var gerð í skrifstofu samtaka sem Navalny stofnaði sem vinna gegn spillingu. Þá segja stuðningsmenn Navalny að hún hafi verið gerð vegna þess að hann hafi neitað að farga upptökum sem tengjast rannsókn samtakanna á spillingarásökunum gegn Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, og Alisher Usmanov, viðskiptajöfri.



Sjá einnig: Ekki útilokað að eitrað hafi verið fyrir Navalny

Alríkislögregla Rússlands, sem framkvæmdi húsleitina, sagði í samtali við Reuters að verið væri að rannsaka hvort samtök Navalny, FBK, hefðu gerst sek um sakhæft athæfi. Þá hafi enginn verið tekinn höndum í húsleitinni.



Viðskiptajöfurinn og milljarðamæringurinn Usmanov vann dómsmál gegn Navalny árið 2017 vegna spillingarmálsins og var Navalny skikkaður til að farga öllum myndbandsgögnum um málið innan tíu daga. Bæði Usmanov og Medvedev þverneituðu fyrir að nokkur fótur væri fyrir ásökununum.



Sjá einnig: Navalny sleppt úr haldi

Navalny sagði í dag að hann myndi ekki farga myndbandinu umrædda, sem hefur verið skoðað meira en 32 milljón sinnum á YouTube síðan það var birt í mars 2017.

Í öryggismyndavélaupptöku frá húsleitinni sjást menn nota einhverskonar kraftmikla sög til að saga í gegn um framhurðina á skrifstofu FBK. Þá sáust mennirnir, sem sumir hverjir voru klæddir svörtum einkennisbúningum og með svartar lambhúshettur, leita á skrifstofunni áður en einn þeirra huldi öryggismyndavélina með límbandi.

Í gær sakaði Navalny rússneska herinn um að hafa rænt samstarfsmanni sínum og neytt hann til að sinna herskyldu ólöglega á afskekktri herstöð við norðuríshafið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×