Enski boltinn

Toppliðið í enska hefur aðeins einu sinni áður unnið stærri sigur á liðinu í öðru sætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli fagnar frægu marki sínu í 6-1 sigri Manchester City á Manchester United í október 2011.
Mario Balotelli fagnar frægu marki sínu í 6-1 sigri Manchester City á Manchester United í október 2011. Getty/Matthew Peters

Liverpool vann fjögurra marka stórsigur á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og jók um leið forskot sitt á toppnum upp í þrettán stig. Stærð sigursins er merkileg í sögulegu samhengi.

Aðeins einu sinni áður hefur topplið ensku úrvalsdeildarinnar unnið stærri sigur á liðinu sem var á þeim tíma í öðru sætinu.

Til að finna stærri sigur þarf að fara aftur til ársins 2011 þegar Manchester City vann frægan 6-1 sigur á nágrönnum sínum í Manchester United í október.

Sigur Manchester City á United 23. október 2011 var einnig stórsigur á útivelli eins og sá hjá Liverpool í gærkvöldi.

Manchester City var með tveggja stiga forystu á Manchester United fyrir leikinn en United var ríkjandi meistari og á heimavelli þannig að margir bjuggust við öflugri frammistöðu frá heimamönnum. Annað kom hins vegar á daginn.

Einn leikmaður spilaði í tapliðinu í báðum leikjum en Jonny Evans, sem var í vörn Leicester City í gær, fékk rauða spjaldið á 47. mínútu í 6-1 tapinu fyrir Manchester City fyrir meira en átta árum síðan.



Þá var staðan 1-0 fyrir Manchester City eftir mark frá Mario Balotelli á 22. mínútu leiksins. Mario Balotelli bætti við öðru marki sínu og öðru marki City á 60. mínútu og níu mínútum síðar var Sergio Agüero búinn að skora þriðja markið.  

Darren Fletcher minnkaði muninn í 3-1 á 81. mínútu en City liðið skoraði síðan þrjú mörk á lokamínútum leiksins. Þau mörk skoruðu þeir Edin Dzeko (2) og David Silva.



Mario Balotelli stal fyrirsögnunum eftir leikinn með „Why always me?“ bolnum sínum sem hann sýndi heiminum eftir fyrsta markið sitt í leiknum.

Manchester City vann síðan ensku úrvalsdeildina á markamun en bæði Manchester liðin enduðu með 89 stig. City var með átta mörkum betri markatölu sem þýðir að ef City hefði unnið fyrrnefndan leik með einu marki í stað fimm þá hefði Manchester United unnið ensku úrvalsdeildina þetta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×