Enski boltinn

Solskjær segir að Erling Håland sé búinn að ákveða hvar hann vilji spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Håland er víst búinn að ákveða sig. Fer hann til Manchester United?
Erling Braut Håland er víst búinn að ákveða sig. Fer hann til Manchester United? Getty/Andreas Schaad

Margir eru að velta fyrir sér framtíð norska framherjans Erling Braut Håland sem sló í gegn með Red Bull Salzburg í Meistaradeildinni í vetur og stuðningsmenn Manchester United eru eflaust hvað spenntastir.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, er landi Erling Braut Håland og þekkir líka strákinn vel síðan að hann þjálfaði hann hjá Molde.

Solskjær virðist vita hvar framtíð Erling Håland liggur því Ole Gunnar sagði að Erling Håland sé búinn að ákveða framtíð sína og hvar hann vilji spila.

Erling Braut Håland hefur skorað 28 mörk í 22 leikjum með Red Bull Salzburg í öllum keppnum á þessu tímabili þar af 8 mörk í 6 leikjum í Meistaradeildinni.

„Hann veit hvað hann vill gera og hvað hann mun gera,“ sagði Ole Gunnar Solskjær en Erling Braut Håland spilaði fyrir hann í tvö ár hjá Molde. Það var einmitt Solskjær sem gar framherjanum sitt fyrsta tækifæri í meistaraflokki þá sextán ára gömlum.



Solskjær var þó ekki tilbúinn að gefa Erling Håland einhver ráð opinberlega. „Ég ráðlegg ekki leikmönnum í öðrum liðum,“ svaraði Ole Gunnar Solskjær.

Þýsku liðin Borussia Dortmund og RB Leipzig hafa bæði sýnt hinum nítján ára gamla framherja mikinn áhuga en umboðsmaður Norðmannsins er Mino Raiola en meðal annarra skjólstæðinga hans eru þeir Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba.

Manchester United hefur ekki gefið það upp hvort félagið hafi sent inn formlegt tilboð í leikmanninn en liðið vantar framherja eftir að félagið seldi Romelu Lukaku til Internazionale fyrir 74 milljónir punda í sumar.

Manchester United er enn með í fjórum keppnum og fram undan er leikur í átta liða úrslitum enska deildabikarsins á móti Colchester á miðvikudaginn.

United gerði 1-1 jafntefli á móti Everton um helgina sem þýðir að liðið er í sjötta sætinu, fjórum stigum á eftir Chelsea sem situr í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×