Menning

Jöklastelpan Steinunn Sigurðar heimsækir Höfn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Steinunn hefur búið í Stokkhólmi, Dublin, Frakklandi, Berlín og nú í Strassborg, en Vatnajökull stendur hjarta hennar nærri.
Steinunn hefur búið í Stokkhólmi, Dublin, Frakklandi, Berlín og nú í Strassborg, en Vatnajökull stendur hjarta hennar nærri. Fréttablaðið/Anton Brink

Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og skáld, ætlar í heimsókn til Hafnar næsta föstudag, 15. nóvember. Hún hefur í farteskinu jöklabálkinn Dimmumót sem hún gaf út nýlega, um leið og hún fagnaði fimmtíu ára rithöfundarafmæli. Í bókinni er jökullinn hennar, Vatnajökull, í forgrunni og hún fjallar þar um hann í fortíð, nútíð og framtíð.

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands mun halda málþing um bókina Dimmumót þennan dag, milli klukkan 16 og 18. Það verður í Nýheimum og samkvæmt fréttatilkynningu eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Þar mun Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur fjalla um jöklaskáldskap Steinunnar undir yfirskriftinni: Forni ljóminn – bláljósahvelið.  Eiginmaður hennar, Þorvarður Árnason, umhverfis- og náttúrufræðingur, talar um listina að mynda jökla og verður með myndasýningu og Steinunn sjálf mun flytja erindi sem hún nefnir Vatna-Jökull á dimmumótum - og lesa upp úr nýju bókinni.

Eftir erindin verður boðið upp á kaffi og Steinunn áritar bækur.

Náttúra Íslands hefur lengi verið veigamikill þáttur í ritmennsku Steinunnar og hún hefur látið náttúruvernd og loftslagsmál til sín taka á ýmsum vettvangi. Dimmumót, er bálkur um hörfandi Vatnajökul, veröld sem var og verður. Þess má geta að Steinunn á heiðurinn af nýyrðinu hamfarahlýnun, sem nú hefur fest sig í sessi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.