Bayern og Juventus í 16-liða úr­­slitin | Juventus skoraði 300. Meistara­­deildar­­markið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lewandowski fagnar í kvöld.
Lewandowski fagnar í kvöld. vísir/getty

Bayern München er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 2-0 sigur á Olympiacos á heimavelli í kvöld.

Bayern ákvað að sparka Niko Kovac úr stjórastólnum á sunnudaginn eftir 5-1 útreið gegn Frankfurt á útivelli og því stýrði Hans-Dieter Flick liðinu til bráðabirgða í kvöld.

Það tók sinn tíma fyrir Bæjara að brjóta niður Grikkina en fyrsta markið kom ekki úr óvæntri átt. Það skoraði Robert Lewandowski eftir að Kingsley Coman nánast þrumaði boltanum í hann og inn.

Varamaðurinn Ivan Perisic bætti svo við öðru markinu á síðustu mínútu venjulegs leiktíma eftir athyglisverða varnartilburði gestanna. Lokatölur 2-0.

Bayern er því komið áfram í 16-liða úrslitin en Olympiacos er einungis með eitt stig eftir fyrstu fjóra leikina í riðlinum.

Í Moskvu voru Juventus mættir í heimsókn og mættu þar heimamönnum í Lokamotiv. Aaron Ramsey kom Juve yfir strax á 4. mínútu en það var mark númer 300 hjá Juventus í Meistaradeildinni. Fimmta liðið til að skora 300 mörk.

Adam var ekki lengi í paradís því átta mínútum síðar jafnaði Aleksey Miranchuk metin. Sigurmarkið skoraði hins vegar Douglas Costa í uppbótartíma og tryggði Juventus 2-1 sigur.

Juventus er með tíu stig á toppi riðilsins, Atletico Madrid í öðru með sjö, Lokamotiv með þrjú og Leverkusen á botninum án stiga en Atletico og Leverkusen mætast síðar í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.