Sport

„Trufluðu“ Haka-dansinn fyrir leik og fengu sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haka-dansinn í fullum gangi.
Haka-dansinn í fullum gangi. Getty/Dan Mullan
Rúgbý er ein af örfáum íþróttagreinum í heiminum þar sem eitt landsliðanna býður upp á dans eða í raun hálfgerðan gjörning rétt fyrir leik. Mótherjarnir verða líka að passa sig á meðan dansinn stendur yfir.

Englendingar tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum á HM í rúgbý með sigri á Nýsjálendingum í undanúrslitaleiknum og mæta Suður-Afríku í leiknum um gullið.

 





Nýsjálendingar buðu upp á Haka-dansinn sinn fyrir leik eins og venjan er. Ensku landsliðsmennirnir voru hins vegar ekki alveg með reglurnar á hreinu.

Þeir urðu að halda sér inn á sínum vallarhelmingi á meðan á Haka-dansinum stóð. Dómarinn leiksins þurfti að fá fjölmarga leikmenn enska liðsins til að baka.





Ensku landsliðsmennirnir stigu fram á móti Nýsjálendingunum eins og þeir væru að svara áskoruninni sem felst í umræddum Haka-dansi fyrir leik. Það var ekki ólöglegt hjá þeim að stíga fram en þeir máttu bara ekki stíga inn á vallarhelming Nýja-Sjálands.

Hvort sem að þetta „útspil“ Englendinga hafi tekið Nýsjálendingana úr jafnvægi eða ekki þá vann enska liðið undanúrslitaleikinn 19-7.





Enska sambandið slapp aftur á móti ekki við sekt heldur voru Englendingar sektaðir um tvö þúsund pund, meira en 320 þúsund íslenskar krónur, fyrir að virða ekki sín mörk á meðan Haka-dansinum stóð.

Úrslitaleikur Englendinga og Suður-Afríkumanna fer fram á laugardaginn en HM fer fram í Japan að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×