Innlent

Leikfélagið ætlar að áfrýja dómi vegna Atla Rafns

Kjartan Kjartansson skrifar
Kristín Eysteinsdóttir sagði fyrir dómi að sér hafi borist sjö tilkynningar um sex atvik kynferðislegrar áreitni og kynferðislegs ofbeldis af hálfu Atla Rafns.
Kristín Eysteinsdóttir sagði fyrir dómi að sér hafi borist sjö tilkynningar um sex atvik kynferðislegrar áreitni og kynferðislegs ofbeldis af hálfu Atla Rafns. Vísir/Egill

Stjórn Leikfélags Reykjavíkur hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns Sigurðssonar, leikara. Leikfélagið og Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri, voru í dag dæmd til að greiða Atla Rafni 5,5 milljónir króna í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar og ærumeiðingar.

Í yfirlýsingu sem Kristín sendi fyrir hönd Leikfélags Reykjavíkur í kvöld kemur fram að stjórnin telji niðurstöðuna í dag skapa óvissu um hvernig stjórnendum á vinnustað beri að rækja skyldur sínar um að tryggja vellíðan og öryggi starfsfólks.

Dómurinn snerist um ákvörðun Kristínar og stjórnar Leikfélagsins að segja Atla Rafni upp störfum í Borgarleikhúsinu í desember árið 2017. Það gerðist í kjölfar þess að Kristínu bárust nokkrar kvartanir undan meinti kynferðislegri áreitni og ofbeldi Atla Rafns. Hann fékk hvorki að vita hver hefði kvartað undan honum né nákvæmlega undan hverju hefði verið kvartað. Krafðist hann þrettán milljóna króna frá Leikfélaginu vegna ólögmætrar uppsagnar og ærumeiðinga.

Niðurstaða héraðsdóms skapar að mati stjórnar Leikfélagsins óvissu um skyldur vinnuveitenda gagnvart starfsfólki. Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að ekki sé vikið að hagsmunum starfsmanna sem hafa kvartað undan kynferðislegri áreitni og kröfu þeirra um vellíðan og öryggi í forsendum dómsins.

„Þessi niðurstaða héraðsdóms skapar að mati stjórnar LR óvissu um skyldur vinnuveitanda gagnvart starfsfólki, hvort þeim sé yfir höfuð heimilt að taka á móti slíkum kvörtunum í trúnaði, hvort hinn meinti gerandi eigi rétt á því að trúnaður við þau sem kvartað hafa sé brotinn og að lokum hvernig bregðast skuli við slíkum ásökunum. Það er að segja hvort ásakanirnar sem slíkar skapi hinum meinta geranda vernd gegn uppsögnum umfram það sem almennt tíðkast á almennum vinnumarkaði,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá gerir stjórnin athugasemd við að í forsendum dómsins komi fram að Atli Rafn hafi eftir atvikum átt rétt á að breyta hegðun sinni. Telur stjórnin þá kröfu ekki eiga við á almennum vinnumarkaði þó að hún eigi við í opinberum starfsmannarétti.

„Þá er því ósvarað hvernig vinnuveitandinn eigi að samþætta slíka kröfu við skyldur sínar gagnvart þeim er kvartað hafa og upplifa vanlíðan á vinnustaðnum,“ segir í yfirlýsingunni sem Kristín og Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnar LR, skrifa undir.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.