Innlent

Segir engar vísbendingar um veruleg áhrif af veru Íslands á gráum lista

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun til að ræða veru Íslands á gráum lista.
Bjarni Benediktsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun til að ræða veru Íslands á gráum lista. Vísir/Vilhelm
Engar vísbendingar eru um það að vera Íslands á gráum lista FATF-hópsins hafi haft veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf til þessa. Þetta hafi þó í för með sér óvissuþætti. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun.

Bjarni og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra komu fyrir nefndina í morgun til að ræða veru Íslands á gráum lista samtakanna Financial Action Task Force (FATF) yfir ríki sem hafa ekki nægar varnir gegn peningaþvætti. Sem kunnugt er var Ísland sett á gráa listann fyrir helgi þar sem FATF lítur svo á að íslensk stjórnvöld hafi ekki gripið til nægjanlegra ráðstafana.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði ráðherrana hvort fylgst væri með því hvaða afleiðingar vera Íslands á listanum hafi á íslenskt efnahagslíf. Þorsteinn sagði augljóst að Ísland yrði fyrir álitshnekkjum sökum þessa en vildi vita hvort markvisst væri fylgst með afleiðingunum. „Við höfum farið yfir þessa óvissuþætti sérstaklega,“ sagði Bjarni. Til dæmis hafi verið fylgst með því hvort þetta geti haft áhrif á gengi krónunnar, gjaldeyrismiðlun, innlenda fjárfestingu, hvort lánshæfismat skaðist eða hvort gjaldeyrismarkaðirnir yrðu fyrir einhverjum áhrifum.

„Enn sem komið er höfum við séð afskaplega lítil áhrif ef nokkur,“ segir Bjarni en bætti við að gætu þurfi sérstakrar varkárni. Engar upplýsingar liggi fyrir á þessari stundu um hvort eitthvað af ofantöldu hafi raungerst.





Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra svaraði spurningum nefndarmanna á fundinum í morgun.Vísir/Vilhelm
Áslaug Arna rakti á fundinum aðdraganda þess að Ísland gerðist aðili að FATF árið 1991. Aðgerðum og vörnum hafi verið ábótavant samkvæmt skýrslu sem kom út árið 2018 og við því hafi þegar verið brugðist að sögn Áslaugar. Í lok september hafi komið í ljós að enn væru sex atriði útistandandi sem öllum hafi verið brugðist við, ýmist væri þeirri vinnu lokið eða væri í ferli. Það hafi ekki dugað til. 

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, spurði ráðherra hvort þau atriði sem enn stæðu útaf kölluð á frekari lagabreytingar. Áslaug sagðist telja að engar aðrar lagabreytingar séu eftir sem þörf sé á, nema eitthvað óvænt komi upp. 

Þá sagði Áslaug að það væri ekki aðeins undir íslenskum stjórnvöldum komið að búa svo um hnútana að Ísland geti farið af listanum á næsta fundi FATF í febrúar þar sem listinn er uppfærður. Það sé ákvörðun ráðgjafanefndar FATF og veltur meðal annars á því hvort, hvort hún komi hingað til lands fyrir febrúarfundinn og hvort hópurinn gaumgæfi þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafi ráðist í. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×