Menning

Verðum að stjórna dýrinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Katrín segir margar leiðir færar í dansinum eins og í öðrum listgreinum.
Katrín segir margar leiðir færar í dansinum eins og í öðrum listgreinum. Fréttablaðið/Valli
Katrín Gunnarsdóttir lýsir nýja dansverkinu sínu Þeli sem líkama hóps. Nándin sé mikil milli dansara Íslenska dansflokksins sem frumsýndu það fyrir helgi á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu.„Skissur að verkinu urðu til í vor með dönsurunum. Í sumar var ég að leita að nafni og þá kom þetta orð, þel, til mín og náði að fanga svo margt. Það hefur með samhug að gera, er líka orð yfir himnur utan um líffæri og svo innra lag íslensku ullarinnar. Í dansverkinu er verið að vinna með mýktina og þetta einangraða rými sem umlykur hvern dansara. Þeir eru þétt saman, þurfa að treysta hver á annan og spila sitt hlutverk inni í stærri mynd. Formið má ekki verða stíft en við verðum samt að stjórna dýrinu svo línan er fín.“Fyrri dansverk Katrínar hafa víða verið sýnd og vakið athygli bæði hér á landi og erlendis. Spurð hvort hægt sé að túlka allt með dansi segir hún:„Eins og í öðrum listgreinum eru margar leiðir færar í dansinum. Ég vinn að mörgu leyti dálítið abstrakt. Fólk er móttækilegt fyrir alls konar dansverkum, það er svo læst á myndmál og sjónræna framsetningu í gegnum ýmsa miðla.“En hvað kveikir hugmyndir að nýjum dansverkum? „Ég tek auðvitað með mér það sem ég er búin að gera, þar verða stundum hugmyndir út undan sem ég nýti eða eitthvað sem ég hef gert áður og finnst enn áhugavert. Í verkinu Crescendo vann ég með raddir, dansararnir raula líka aðeins í Þeli og Baldvin Magnússon, sem býr til tónlistina, notar raulið sem efnivið. Ég hef orðið mikla trú á að vinna í æfingarrýminu, oft er það þannig að hreyfingin kemur fyrst og þá sé ég hvað ég vil – eða vil ekki.“

„Það verður til sérstakt tungumál þegar allir eru að vinna með næmi og hlustun,“ segir höfundurinn Katrín. Mynd/Íslenski dansflokkurinn
Katrín segir Evu Berger búningahönnuð orða þetta vel. „Eva er listamanneskja og í hönnun á umgjörð leggur hún stundum meiri áherslu á að útiloka eitthvað en að segja skýrt hvað hún sé að túlka. Heldur því svolítið opnu. Í Þeli hefur hún mjúka tóna og leikmyndin faðmar danshópinn. Áhorfendur mega svo skynja það sem þeir vilja. Leikhúsið er einn af fáum stöðum þar sem tíðkast að fólk sé beðið að slökkva á símunum, það er gott þegar áhorfendur ná að njóta og finna smá ró og vinarþel.“Katrín menntaði sig í hagfræði eftir kreppu og starfaði við hana um hríð en segir dansinn í fyrsta sæti þessa dagana. „Mér finnst hagfræðin samt skemmtileg og er ánægð að hafa hana í farteskinu. Listin er svo dyntótt. Fólk getur fengið ógeð á mér og ég get fengið ógeð á listinni. Starfsumhverfið er líka ótryggt. Dansgeirinn hér á landi er það lítill að nauðsynlegt er að starfa líka erlendis. Því fylgja sýningaferðalög þessari listgrein og þá er spurning hversu sjálfbært það fyrirkomulag er til framtíðar. Umhverfismálin eru að verða stærri og stærri hluti af því hvernig maður hugsar og hagar sér. “Katrín á ársgamla dóttur með sambýlismanninum, Baldvini Magnússyni tæknistjóra hjá Íslenska dansflokknum. „Dóttirin er ótrúlega kærkomin viðbót við lífið, alger sprelligosi og aðeins farin að dansa heima. Litlu börnin eru bestu dansararnir, líkamar þeirra eru svo frjálsir og fullkomnir. Ég dansaði líka, kenndi og samdi meðan ég var ófrísk þannig að hún hefur búið við dans frá fyrstu stundu.“

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.