Bíó og sjónvarp

George Clooney leitar að aukaleikurum fyrir tökur á Höfn í Hornafirði

Birgir Olgeirsson skrifar
George Clooney leikstýrir myndinni en hann leitar að aukaleikurum á aldrinum 7 til 70 ára.
George Clooney leikstýrir myndinni en hann leitar að aukaleikurum á aldrinum 7 til 70 ára. Vísir/Getty

Eskimo Iceland leitar að fólki fyrir tökur á mynd sem George Clooney leikstýrir. Myndin verður tekin upp í nágrenni Hafnar í Hornafirði en hún er framleidd fyrir streymisveituna Netflix.

Í auglýsingu sem Eskimo Iceland birtir er leitað að alls konar fólki á aldrinum sjö til sjötíu ára. Verður þetta fólk aukaleikarar í þessu erlenda kvikmyndaverkefni sem tvöfaldi Óskarsverðlaunahafinn George Clooney leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í.

„Við viljum sérstaklega heyra frá fjölskyldum með börn/unglinga á aldrinum 7-17 ára, sem hafa áhuga á að taka þátt saman. Ekki er verra ef amma og/eða afi fylgja með líka,“ segir í auglýsingu Eskimo Iceland.

Tökurnar fara fram dagana 20. október til 7. nóvember en þeir sem ætla að taka að sér að vera aukaleikarar þurfa að geta fengið sig lausa í hvaða tvo til þrjá daga sem er á því tímabili.

Myndin ber heitið Good Morning, Midnight en hún segir frá tveimur vísindamönnum sem reyna hvað þeir geta til þess að halda sambandi hvor við annan í heimi ólíkum þeim sem við þekkjum, þar sem myndin gerist eftir miklar hamfarir sem fara nærri því að eyða öllu mannkyni.

Vísindamaðurinn sem Clooney leikur er þannig staðsettur á norðurhveli jarðar á meðan hinn er í geimfarinu Aether, sem flýtur stjórnlaust um geiminn. Vísindamennirnir tveir verða að vinna saman að því að ná markmiði sínu, sem er að komast aftur til annarra eftirlifenda heimsendis. Auk Íslands verður myndin líka tekin upp í Bretlandi.
Tengdar fréttir

George Clooney til Íslands í haust

Leikarinn geðþekki mun fara með aðalhlutverk í Netflix-mynd sem tekin verður upp hér á landi í haust. Hann fer einnig með leikstjórn myndarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.