Lífið

„Miklu hrein­legra, þægi­legra og ró­legra“ að pissa sitjandi frekar en standandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Örn Ingólfsson, sálfræðingur, mælir með því að karlmenn sitji frekar á klósettinu en standi og færir fyrir því margvísleg rök.
Gunnar Örn Ingólfsson, sálfræðingur, mælir með því að karlmenn sitji frekar á klósettinu en standi og færir fyrir því margvísleg rök. vísir/getty
Grein sem sálfræðingurinn Gunnar Örn Ingólfsson skrifaði á Vísi í vikunni undir yfirskriftinni „Hlandfýlan“ hefur vakið töluverða athygli.

Í greininni fjallar hann um hvernig það kom til að hann hætti að pissa standandi, líkt og er karlmanna siður, og fór að pissa sitjandi.

Hann færir ýmis rök fyrir því að betra sé fyrir karlmenn að pissa sitjandi, meðal annars að auðveldara sé að tæma blöðruna og aðrir sem nota klósettið eigi þar góða stund því ekki sé hlandlykt eða pissufruss að angra þá.

Gunnar ræddi málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann sagði það sína reynslu að það væri betra að tæma blöðruna ef maður pissar sitjandi.

„Já, allavega er það mín lífsreynsla, eða upplifun, að maður slakar miklu meira á, maður þarf ekkert að hrista eða svona. Maður notar bara eitt bréfsnifsi og þá er þetta bara búið. Þetta er miklu hreinlegra, þægilegra og rólegra,“ segir Gunnar sem rifjar það upp í greininni að sem barni var honum kennt að sitja á klósettinu þegar verið var að venja hann af bleyjunni.

„Sem vaxandi ungum dreng, sem vildi sem fyrst verða að fullvaxta karlmanni, þá var mér kennt að standa upp og pissa. Hvergi var það rætt hvaða tilgangi þetta þjónaði eða hvort að það væri einhver afleiðing af þessari breytingu,“ segir í greininni.

Gunnar Örn Ingólfsson, sálfræðingur.

Grunar að þetta hafi eitthvað með karlmennskuna að gera

Aðspurður um ástæðuna fyrir því að strákar séu látnir standa upp á þessum mótunarárum og hvort það hafi eitthvað með karlmennskuna að gera segir Gunnar:

„Það er það sem mann grunar og virðist vera. Svona kennir maður karli að pissa og svona kennir maður stelpu að pissa. Það er samt miðað við þær rannsóknir sem ég hef kynnt mér út frá þessu þá var ekki nein ástæða til þess að standa sem ég gat rekið mig á. Það eru engar vísindalegar ástæður.“

Gunnar segist ekkert hafa skilið í því hvers vegna það hefði alltaf verið hlandfýla á klósettinu hans þegar hann flutti í eigin íbúð.

Það hafi hins vegar breyst þegar hann fór að pissa sitjandi því þá fóru ekki litlir hlanddropar á klósettið og í kringum það sem maður tekur ekki eftir að koma þegar verið er að pissa standandi.

Gunnar hefur orðið var við það að karlmönnum þyki óþægilegt að ræða þetta, að pissa standandi. Spurður hvers vegna hann telji svo vera segir hann:

„Líklega er þetta tengt því að við viljum ekki láta benda okkur á ef eitthvað sem við gerum er ekki vel liðið eða ekki rétt jafnvel. Þetta er svo rótgróið og lítið hugsað út í þetta. Þetta virðist trufla mikið. Svo ef við tölum um þessa karlmennsku og þetta tengist því einhvern veginn, án þess að maður hafi staðfestingu á því þá grunar mann það, þá er hún oft viðkvæmur partur af sjálfsálitinu og tengist tilfinningum.“

Hlusta má á viðtalið við Gunnar í spilaranum hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×