Erlent

Heitasti júní í Evrópu frá því að mælingar hófust

Kjartan Kjartansson skrifar
Vatnsúðurum var komið fyrir í París til að borgarbúar gætu kælt sig niður í hitabylgjunni í síðustu viku.
Vatnsúðurum var komið fyrir í París til að borgarbúar gætu kælt sig niður í hitabylgjunni í síðustu viku. Vísir/EPA
Nýliðinn júní var sá hlýjasti í Evrópu frá því að mælingar hófust samkvæmt gögnum evrópskrar veðurfræðistofnunar. Loftslagsbreytingar af völdum manna eru taldar hafa gert hitabylgjuna sem geisaði víða á meginlandinu undir lok mánaðarins allt að fimm sinnum líklegri til að eiga sér stað en ella.

Hitamet voru slegin víða í hitabylgjunni í Evrópu í júní, þar á meðal í Þýskalandi og Austurríki þar sem aldrei hefur mælst hærri hiti í júní. Hitinn í nokkrum löndum fór yfir 45 gráður. Víða voru met slegin bæði fyrir júnímánuð og fyrir allt árið þrátt fyrir að yfirleitt verði hlýjast í júlí og ágúst.

Samkvæmt mælingum Evrópumiðstöðvar meðallangtímaveðurspáa (ECMWF) var meðalhitinn í álfunni meira en tveimur gráðum hærri en í venjulegu árferði. Mánuðurinn sé sá hlýjasti frá því að mælingar hófust, að því er segir í frétt Washington Post.

Vísindamenn sem rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á einstaka veðuratburði segja að bráðabirgðaniðurstöður þeirra fyrir júní séu að meðalhiti hitabylgjunnar sem gekk yfir Frakkland sé fjórum gráðum hærri en hefði orðið fyrir einni öld.

Þeir telja að loftslagsbreytingar hafi gert ákafa hitabylgjunnar nú fimmfalt líklegri en ella. Veruleg óvissa sé þó í frumgreiningu þeirra og mögulegt sé að áhrif loftslagsbreytinga séu enn meiri.


Tengdar fréttir

Hitametin falla á meginlandinu

Hitinn á enn að hækka víða á meginlandi Evrópu í dag. Varað er við hættu á skógareldum og ógn við heilsu manna.

Hæsta hitastig sem mælst hefur í Frakklandi frá upphafi

Bærinn Carpentas tilheyrir Vaucluse héraðinu sem er eitt fjögurra héraða þar sem efsta varúðarstig er í gildi eða svokölluð rauð viðvörun. Þetta er í fyrsta sinn sem franska veðurstofan grípur til þess að lýsa yfir efsta varúðarstigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×