Sport

Fury og Wilder mætast aftur í febrúar: „Núna ætla ég að rota hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fury og Wilder gerðu jafntefli í desember á síðasta ári.
Fury og Wilder gerðu jafntefli í desember á síðasta ári. vísir/getty
Hnefaleikakapparnir Tyson Fury og Deontay Wilder mætast öðru sinni 22. febrúar á næsta ári. Bardaginn fer líklega fram í Las Vegas.

Fury og Wilder mættust í titilbardaga í þungavigt í Staples Center 1. desember á síðasta ári og gerðu jafntefli. Dómurinn þótti umdeildur en Fury fannst hann hafa unnið sigur.

Frammistaða Furys í bardaganum í desember vakti mikla athygli en hann hafði verið nánast óvirkur í þrjú ár vegna áfengis- og eiturlyfjafíknar og andlegra erfiðleika.

„Það er búið að staðfesta bardagann. Og núna ætla ég að rota hann,“ sagði Fury. „Staðan er önnur núna. Ég hef ekki verið utan hringsins í þrjú ár og að hella í mig áfengi.“

Til að bardaginn 22. febrúar á næsta ári verði að veruleika þarf Wilder að sigra Luis Ortiz í lok september. Þeir mættust í mars 2018 og þá vann Wilder með tæknilegu rothöggi. Fyrir utan jafnteflið við Fury hefur Wilder unnið alla bardaga sína á ferlinum.

Bæði Fury og Wilder hafa keppt einu sinni frá bardaga þeirra í desember. Fury sigraði Tom Schwarz í júní og Wilder bar sigurorð af Dominic Breazeale í maí.

Næsti bardagi Furys fer fram í Madison Square Garden í New York 5. október en ekki liggur enn fyrir hverjum hann mætir.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×