Erlent

Íranir segja Hvíta húsið „andlega fatlað“ vegna refsiaðgerðanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Rouhani forseti segir tilgangslaust af Bandaríkjamönnum að beita Khamenei æðstaklerk refsiaðgerðum.
Rouhani forseti segir tilgangslaust af Bandaríkjamönnum að beita Khamenei æðstaklerk refsiaðgerðum. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Teheran hafa brugðist ókvæða við ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að leggja enn frekari refsiaðgerðir á Írani. Hassan Rouhani, forseti Írans, segir að Bandaríkjastjórn ljúgi því til að hún vilji viðræður og kallar Hvíta hús Trump „andlega fatlað“.

Trump tilkynnti um hertar viðskiptaþvinganir gegn Íran í gær. Þær beinast meðal annars persónulega að Ayatolla Khamenei, æðstaklerki Írans, og Javad Zarif, utanríkisráðherra landsins. Þvinganirnar eru svar Bandaríkjastjórnar við því að Íranir skutu niður ómannaðan dróna Bandaríkjahers í síðustu viku.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, fullyrti engu að síður í gær að forsetinn væri opinn fyrir viðræðum við Írani, að því er segir í frétt Washington Post.

Rouhani, forseti Írans, sagði aftur á móti að aðgerðir Bandaríkjastjórnar lokuðu diplómatískum leiðum varanlega. Hvíta húsið væri orðið „andlega fatlað“ undir stjórn Trump. Refsiaðgerðirnar gegn æðstaklerkinu væru „svívirðilegar og heimskulegar“.

„Þið leggið refsiaðgerðir á utanríkisráðherrann um leið og þið biðjið um viðræðu?“ sagði Rouhani í sjónvarpsávarpi í gær.

Ástandið að verða hættulegt

Spennan á milli Bandaríkjanna og Írans hefur farið vaxandi eftir að Trump forseti sagði sig frá kjarnorkusamningnum sem heimsveldin gerðu við Íran í tíð Baracks Obama árið 2015 í fyrra. Hann hefur síðan lagt viðskiptaþvinganir aftur á Íran sem hafði verið aflétt með samningnum.

Undanfarið hafa Íranar svarað með því að segja ætla að brjóta gegn skilmálum samningsins um hversu mikið að auðguðu úrani þeir mega viða að sér nema að viðsemjendur þeirra standi við hann. Bandaríkjastjórn hefur kennt Írönum um nýlegar á árásir á skip í Hormússundi og Ómanflóa. Trump hætti við loftárásir á Íran til að svara þeim árásum á ögurstundu í síðustu viku.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lýsti áhyggjum af ástandinu í dag. Sagði hann stöðuna við það að verða hættulega, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Rússland er eitt helsta bandalagsríki Írans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×