Sport

Sleggjur munu fljúga

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Ngannou og dos Santos í vigtuninni í gær.
Ngannou og dos Santos í vigtuninni í gær. Vísir/Getty

Það verður sannkallaður risaslagur í nótt þegar UFC heimsækir Minnesota. Þeir Francis Ngannou og Junior dos Santos mætast í aðalbardaga kvöldsins í alvöru þungavigtarbardaga.

Það er oft sagt að tæknileg geta sé mest hjá bardagamönnum í léttustu flokkunum en svo fari hún minnkandi eftir því sem þyngdin verður meiri. Bardagar í þungavigt verða því oft slappir og ótæknilegir þar sem menn eiga til að þreytast fljótt ef bardaginn klárast ekki í fyrstu lotu.

Það er samt alltaf undarlega heillandi við að sjá tvö tröll kljást í búrinu og finna fyrir þyngd þeirra ferðast um búrið. Það verður alvöru kraftur í búrinu í kvöld þegar þeir Francis Ngannou og Junior dos Santos mætast. Báðir eru þeir meðal bestu þungavigtarmanna heims og skammt undan titilbardaga.

Francis Ngannou skaust hratt upp á stjörnuhimininn þegar hann kom í UFC. Hann var fljótur að klára bardagana með ógnarkrafti sínum og fékk titilbardaga aðeins tveimur árum eftir að hann kom fyrst í UFC. Ngannou tapaði titilbardaganum og átti síðan einn versta bardaga í sögu UFC þegar hann tapaði fyrir Derrick Lewis. Eins hratt og Ngannou braust fram á sjónarsviðið virtist hann ætla að verða jafn fljótur að hverfa. Hann hefur þó náð góðri endurkomu og núna unnið tvo bardaga í röð – báða með rothöggi á undir mínútu.

Junior dos Santos hefur átt nokkuð kaflaskiptan feril í UFC. Hann vann fyrstu sjö bardaga sína í UFC og fékk svo titilbardaga. Dos Santos varð þungavigtarmeistari með sigri á Cain Velasquez en tapaði svo titlinum í öðrum bardaga gegn Velasquez. Eftir það kom tímabil þar sem hann skiptist á að tapa og vinna en fékk þó tvö önnur tækifæri á titlinum sem honum tókst ekki að nýta. Núna hefur dos Santos unnið þrjá bardaga í röð og eru því báðir bardagamenn í lykilstöðu til að fá titilbardaga.

Bardaginn er sennilega einn áhugaverðasti bardaginn í sumar hjá UFC. Báðir vilja þeir standa og afgreiða andstæðinginn með rothöggi en samanlagt eru þeir með 28 rothögg á ferilskránni. Það verða því stórar sleggjur sem munu fljúga í kvöld. Sigurvegarinn mun sennilega fá næsta titilbardaga en þungavigtarmeistarinn Daniel Cormier mætir Stipe Miocic í ágúst.

Bardagakvöldið verður í beinni á Stöð 2 Sport í nótt. Þar munum við sjá tröllin mætast en einnig verður mikilvægur bardagi í fluguvigtinni á dagskrá og þá mun Demian Maia mæta Anthony Rocco Martin. Bein útsending hefst kl. 1:00 í nótt og verða sex bardagar á dagskrá.

MMA

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.