Sport

Myndband | Þór Þormar vann á heimavelli

Bragi Þórðarson skrifar
Þór Þormar Pálsson flaug manna hæst í KFC torfærunni.
Þór Þormar Pálsson flaug manna hæst í KFC torfærunni.

Bíladagar Orkunnar fara nú fram á Akureyri. Einn af viðburðum hátíðarinnar var önnur umferð Íslandsmótsins í torfæru sem fór fram í gryfjunum í Glerárdal á laugardaginn.

Veðurblíðan undanfarnar vikur setti svip sinn á KFC torfæruna, gríðarlegt ryk var í gryfjunum sem gerði ökumönnum erfitt fyrir.

Þrír bílar voru skráðir í Götubílaflokk og var það reynsluboltinn Steingrímur Bjarnason á Strumpnum sem stóð uppi sem sigurvegari.
Hart barist í sérútbúna flokknum

Í flokki sérútbúinna bíla voru 19 bílar skráðir til leiks. Geir Evert Grímsson leiddi Íslandsmótið fyrir keppnina eftir sigur í fyrstu umferðinni á Hellu.

Keppnin byrjaði þó illa fyrir Geir er hann festi bíl sinn, Sleggjuna, strax í fyrsta barði. Hann átti því aldrei raunhæfa möguleika á sigri eftir það og endaði fimmti.

Haukur Viðar Einarsson á Heklu endaði þriðji á Hellu. Hann var annar framan af í KFC torfærunni en varð að lokum að sætta sig við þriðja sætið aðra keppnina í röð.

Alexander Már Steinarsson fékk Guttann Reborn lánaðan hjá Ingólfi Guðvarðarsyni. Alexander keyrði frábærlega á Akureyri og hrifsaði silfrið af Hauki með frábærum akstri í síðustu braut dagsins.

Heimamaðurinn með yfirburði

Þór Þormar Pálsson, ríkjandi Íslandsmeistari, stóð uppi sem öruggur sigurvegari í sinni heimakeppni.

Rétt eins og í Akureyrartorfærunni í fyrra bar akstur hans af og er greinilegt að gryfjurnar í Glerárdal henta honum vel.

Úrslitin þýða að Þór Þormar, Geir Evert og Haukur Viðar standa jafnir að stigum í fyrsta sæti Íslandsmótsins. Þriðja umferð mótsins fer fram á Blönduósi eftir tvær vikur og verður hart barist þar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.