Enski boltinn

Gylfi ofarlega á mörgum listum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar einu af þrettán mörkum sínum á leiktíðinni.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar einu af þrettán mörkum sínum á leiktíðinni. Getty/Clive Brunskill
Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson endaði tímabilið á að leggja upp mark í jafnteflinu á móti Tottenham í lokaumferðin ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Þetta var sjötta stoðsendingin hans á tímabilinu og náði hann því að koma með beinum hætti að nítján mörkum á leiktíðinni.

Þetta var merkilegt tímabil fyrir Gylfa þar sem hann bæði bætti markamet Eiðs Smára Guðjohnsen í ensku úrvalsdeildinni sem og að ná að komast í hóp þeirra sem hafa búið til hundrað mörk í bestu deild Evrópu.

Gylfi skoraði þrettán mörk á leiktíðinni og varð ásamt Paul Pogba hjá Manchester United, markahæsti miðjumaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Pogba skoraði úr fimm fleirum vítum en okkar maður.

Næsti miðjumaðurinn var síðan Luka Milivojevic hjá Crystal Palace en 10 af 12 mörkum hans komu af vítalínunni.

Gylfi endaði í tíunda sæti á markalistanum og varð síðan í 21. sæti með sínar sex stoðsendingar. Hann er mun oftar á öðrum sendingalistum og það voru bara tíu leikmenn sem tóku fleiri skot en íslenski miðjumaðurinn á leiktíðinni.

Gylfi hefði getað skorað fleiri mörk því hann var duglegur að koma sér í færi. Hann er þannig í 4. sæti yfir þá leikmenn sem klúðruðu flestum dauðafærum á leiktíðinni.

Kannski var eitt af vandamálum Everton að koma ekki boltanum oftar á okkar mann miðað við framleiðslu hans. Gylfi endaði nefnilega bara í 94. sæti yfir þá sem komu oftast við boltann í leiktíðinni.

Sætin hans Gylfa í tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili

(Samkvæmt opinberri tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar)

1. sæti yfir markahæstu miðjumenn (13)

10. sæti yfir markahæstu leikmenn (13)

21. sæti yfir stoðsendingar (6)

8. sæti yfir fyrirgjafir (196)

6. sæti yfir stungusendingar (19)

11. sæti yfir tekin skot (86)

8. sæti yfir tekin horn (105)

4. sæti yfir klúðruð dauðafæri (10)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×