Bíó og sjónvarp

Þekktur bandarískur gamanleikari í Ráðherranum

Birgir Olgeirsson skrifar
Rainn Wilson sem Dwight Schrute í The Office.
Rainn Wilson sem Dwight Schrute í The Office. IMDB

Bandaríski gamanleikarinn Rainn Wilson kom hingað til lands til að leika í þáttunum Ráðherranum. Þáttaröðin skartar Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverki en hún segir frá því þegar forsætisráðherra Íslands greinist með geðhvarfasýki. Aðstoðarmaður hans þarf að leggja bæði stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til þess að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni.

Rainn Wilson þessi er 53 ára gamall en hann er án efa þekktastur fyrir að leika Dwight Schrute í bandarísku útgáfunni af gamanþáttunum The Office. Fyrir það hlutverk hlaut hann þrjár tilnefningar til Emmy-verðlauna.

Hann birti mynda af tökuliði Ráðherrans á Twitter á mánudag og sagði: „Þegar þú ert að taka upp íslenskan sjónvarpsþátt á Íslandi, þá er tökuliðið frekar íslenskt. “Leikstjórar þáttanna eru Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarsson en með önnur hlutverk fara Blær Jóhannsdóttir, Aníta Briem, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Jóhann Sigurðsson. Handritshöfundar eru Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson.

Þáttaröðin hefur hlotið þrjá handritastyrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, samtals 1,8 milljónir króna, og vilyrði fyrir framleiðslustyrk fyrir árið 2019 upp á 50 milljónir króna.

Sagafilm framleiðir þættina en forstjóri fyrirtækisins, Hilmar Sigurðsson, vildi lítið gefa upp um aðkomu Rainn Wilson að þættinum en sagði þó að hann hefði líklegast yfirgefið landið í dag.

Um er að ræða átta þætti sem meðal annars verða sýndir á RÚV haustið 2020.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Rainn Wilson og Ólafur Darri leiða saman hesta sína en síðast sáust þeir saman í hákarlamyndinni The Meg. Þá hefur Rainn Wilson einnig heimsótt Ísland áður en það var árið 2017. 

Rainn Wilson í The Meg. IMDB

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.