Erlent

Sleit viðræðum við May um Brexit

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. EPA/Brian Lawless

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, tilkynnti nú í morgun að viðræðum hans og Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu væri lokið. Þær hefðu engan árangur borið. Corbyn sagði ríkisstjórn Bretlands vera veikburða og hún væri komin á síðustu metrana.

Viðræðurnar hófust fyrir sex vikum síðan en kosið verður enn einu sinni um Brexit samning May í næstu viku. Þingið hefur þegar hafnað samningnum þrisvar sinnum. May hefur heitið því að leggja fram áætlun um val á nýjum formanni í kjölfar þeirrar atkvæðagreiðslu.

Corbyn segir í bréfi til May að sú ákvörðun að finna nýjan leiðtoga Íhaldsflokksins geri stöðu ríkisstjórnarinnar enn verri en hún sé.

Upprunalega átti Brexit að eiga sér stað þann 23. mars. Því var svo frestað nokkrum sinnum og svo allt til 31. október.

Samkvæmt BBC vilja forsvarsmenn Verkamannaflokksins áframhaldandi tollasamastarf við ESB eftir Brexit og þar að auki vilja þeir halda þeim möguleika opnum að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulegan úrgöngusamning.

Því hafa Brexit-liðar innan Íhaldsflokksins hafnað alfarið. Þeir segja áframhaldandi tollasamstarf þýða að Bretland geti ekki gert eigin viðskiptasamninga við önnur ríki og þeir segja aðra þjóðaratkvæðagreiðslu vera andlýðræðislega.

Þá hafa einhverjir þingmenn Íhaldsflokksins gagnrýnt May fyrir að hafa yfir höfuð átt í viðræðum við Corbyn. Hún hefur þó sagt að ríkisstjórnin hafi ekki átt annarra kosta völ.

Bretar þreyttir á Brexit

Þingmenn Íhaldsflokksins eru verulega ósammála um stöðu Bretlands gagnvart Evrópusambandinu og hafa þeir verið það um árabil. Þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa má reka til þess að David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, vildi losna undan þrýstingi frá þeim meðlimum flokksins sem vildi endurskilgreina samband Bretlands og ESB.

Í þeim þremur kosningum sem nú hafa farið fram um Brexit-samningnum May hafa fjölmargir þingmenn flokksins greitt atkvæði gegn samningnum. Þegar fyrsta atkvæðagreiðslan fór fram í janúar, greiddu 432 þingmenn atkvæði gegn samningnum. Einungis 202 greiddu atkvæði með honum þegar minnst 320 atkvæði þurfti til.

Um var að ræða stærsta ósigur forsætisráðherra Bretlands í sögu þingsins.

Sjá einnig: Meirihluti Breta telur nú að þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit hafi verið slæm hugmynd

Ljóst er að mikil Brexit-þreyta herjar nú á Breta og í síðasta mánuði sögðust 55 prósent þeirra að upprunalega þjóðaratkvæðagreiðslan um úrgönguna árið 2016 hafi verið mistök. Þar að auki töpuðu bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn sætum víða um Bretland í sveitarstjórnarkosningum í byrjun mánaðarins.


Sjá tækifæri á sjálfstæði

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, sagði á skoska þinginu í lok apríl að Skotar muni undirbúa nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði fyrir maí 2021, hvort sem stjórnvöld í Lundunum gefi leyfi fyrir slíku eða ekki.

Árið 2014 var slík atkvæðagreiðsla haldin í Skotlandi og kusu 44,7 prósent íbúa að lýsa yfir sjálfstæði en 55,3 vildu það ekki. Skotar vilja þó ólmir vera í Evrópusambandinu. Á sama tíma og 51,89 prósent Breta samþykktu úrgöngu úr ESB árið 2016 voru einungis 38 prósent Skota sammála. 62 prósent Skota vildu vera áfram í ESB.

Þá sjá þjóðernissinnar á Norður-Írlandi tækifæri á sameiningu Írlands í Brexit.

Norður-Írland hefur verið í brennidepli vegna útgöngunnar. Umdeildasti hluti útgöngusamnings Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við ESB er sá sem varðar svonefnda baktryggingu á Írlandi. Henni er ætlað að koma í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæraeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands.

Óttast hefur verið að hörð landamæri á milli Norður-Írlands og Írlands gæti kynnt aftur undir trúardeilum á milli kaþólikka og mótmælenda á Norður-Írlandi og að þau gætu ógnað friðarsamkomulaginu sem skrifað var undir á föstudaginn langa árið 1998.


Tengdar fréttir

Blússandi sigling á Farage

Allt útlit er fyrir að hinn háværi íhaldsmaður og Brexit-sinni Nigel Farage muni standa uppi sem sigurvegari Evrópuþings­kosninganna sem fara fram í Bretlandi þann 23. maí.

Fyrrverandi formaður Íhaldsflokksins kallar eftir afsögn May

Kostir Íhaldsflokksins eru tveir eftir afhroð sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru í Bretlandi í vikunni samkvæmt Ian Duncan Smith, fyrrverandi formanni flokksins. Kostirnir eru annars vegar að Theresa May segi af sér eða henni verði steypt úr stóli forsætisráðherra og formanns flokksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.