Innlent

Fólk í hættu þegar eldurinn kom upp

Sylvía Hall skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir/Jóhann K.
Slökkviliðið hefur verið kallað út eftir að eldur kom upp í íbúð í Dalshrauni í Hafnarfirði en útkallið barst á fjórða tímanum í dag. Allar stöðvar eru á vettvangi og vinna nú að því að slökkva eldinn.

Jóhann Örn Ásgeirsson, aðstoðarvarðstjóri slökkviliðsins, segir eld hafa logað út um einn glugga og reykur hafi verið út um fleiri þegar viðbragðsaðilar mættu á vettvang og útlitið hafi verið slæmt.

Íbúðin er staðsett fyrir ofan húsasmiðju og var fólk í íbúðinni þegar eldurinn kom upp en slökkviliðsmenn björguðu fjórum mönnum af svölum hússins að því er fram kemur á vef RÚV. Ekki er vitað um meiðsl þeirra að svo stöddu. 

Ekki hefur verið náð tökum á eldinum en enn er unnið að því að slökkva hann.

„Þetta lítur betur út en þegar við komum en við erum ekki búin að ná tökum á þessu enn þá,“ segir Jóhann en viðbragðsaðilar hafa ekki enn komist í þau rými sem verst eru farin eftir eldinn. 



Uppfært 16:21: Unnið er að því að rjúfa þakið á húsinu. 

Uppfært 16:47: Eldur logar enn í húsinu en slökkviliðsmenn eru að ná tökum á eldinum. Töluverð vinna er eftir og verður slökkvistarf hér eftir unnið innan úr húsinu. Nærliggjandi hús eru ekki talin vera í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×