Sport

Verður Max Holloway jafn góður í léttvigt?

Pétur Marinó Jónsson skrifar

UFC 236 fer fram í nótt í Atlanta þar sem tveir titilbardagar verða á dagskrá. Fjaðurvigtarmeistarinn Max Holloway fer upp í léttvigt þar sem hann tekst á við nýjar áskoranir.

Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Max Holloway og Dustin Poirier. Barist er um bráðabirgðartitil (e. interim title) í léttvigt þar sem ríkjandi meistari, Khabib Nurmagomedov, er í banni eftir lætin gegn Conor McGregor í október.

Holloway er enn ríkjandi fjaðurvigtarmeistari og fer nú upp í léttvigt í fyrsta sinn. Þó þetta verði nýr þyngdarflokkur fyrir Holloway er andstæðingurinn kunnuglegur. Þeir Holloway og Poirier mættust árið 2012 þar sem Poirier sigraði. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Bardaginn árið 2012 var fyrsti bardagi Holloway í UFC en þá var hann tvítugur og með aðeins fjóra atvinnubardaga að baki. Holloway var hrár en eftir smá bras í byrjun hefur hann unnið 13 baradaga í röð og er einn besti bardagamaður heims.

Dustin Poirier var ögn reynslumeiri en Holloway þá. Hann átti síðan ágætis gengi að fagna í fjaðurvigt en eftir tap gegn Conor McGregor ákvað hann að fara upp í léttvigt. Þar hefur hann verið magnaður og aldrei verið eins góður og nú.

Nú þegar Holloway reynir við léttvigtina verður forvitnilegt að sjá hvort hann njóti sömu velgengni. 13 bardaga sigurganga hans (eða síðan hann tapaði fyrir Conor McGregor í ágúst 2013) hefur hreinlega verið mögnuð en nú tekst hann á við stærri menn. Poirier verður áhugavert próf fyrir Holloway en sigurvegarinn hér mun að öllum líkindum fá bardaga gegn Khabib Nurmagomedov í haust.

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins verður svo annar bráðabirgðartitill en þá mætast þeir Kelvin Gastelum og Israel Adesanya. Ríkjandi meistari, Robert Whittaker, er fjarverandi vegna meiðsla og mun sigurvegarinn hér fá tækifæri á alvöru beltinu.

UFC 236 verður sýnt á Stöð 2 Sport í nótt en bein útsending hefst kl. 2.

MMA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.