Bíó og sjónvarp

Nostalgía á Barnakvikmyndahátíð

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Hin ástsæla kvikmynd Benjamín dúfa verður sýnd á hátíðinni.
Hin ástsæla kvikmynd Benjamín dúfa verður sýnd á hátíðinni.
Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík hefst í dag, fimmtudaginn 4. apríl, í Bíó Paradís og stendur yfir til 14. apríl. Það er 1.000 króna barnaverð fyrir alla og gnægð af fríviðburðum.

Nostalgía mun svífa yfir vötnum, en sýndar verða klassískar myndir á borð við Ghostbusters og The NeverEnding Story ásamt einni ástsælustu kvikmynd úr smiðju Jims Henson, The Dark Crystal.

Opnunarmynd Barnakvikmyndahátíðar er Benjamín dúfa, sem hefur ekki sést í bíó í áratugi, en hefur nú verið endurbætt í fullum stafrænum mynd-/hljóðgæðum fyrir frábæra upplifun.

Einnig mun kvikmyndin eftir sígildri sögu Astrid Lindgren um Ronju ræningjadóttur eiga endurkomu á Barnakvikmyndahátíð með íslensku tali, sú mynd hefur heldur ekki sést í bíó síðan á níunda áratugnum og birtist nú áhorfendum í glænýrri stafrænni útgáfu.



Hin bráðskemmtilega mynd um Matthildi eftir sögu Roalds Dahl er á meðal mynda á hátíðinni.
Japanskar teiknimyndir eiga sinn sess á Barnakvikmyndahátíðinni, en í þetta sinn verður sýnd hin klassíska mynd leikstjórans Hayao Miyazaki, My Neighbor Totoro, ásamt hinni spánnýju Mirai sem var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í ár sem besta teiknimyndin.

Fjölmargir fríviðburðir eru í boði á Barnakvikmyndahátíð, slímnámskeið verður á undan sýningu Ghostbusters (sun. 7/4), leiklistarnámskeið undir handleiðslu Ísgerðar Elfu Gunnarsdóttur (sun. 14/4), japanska sendiráðið á Íslandi stendur fyrir sýnikennslu á japanskri skrautskrift (sun. 7/4) og á Eurovision-viðburði (fös. 12/4) verður stiklað yfir brot úr öllum framlögunum árið 2019.

Einnig verður frítt inn á allar bíósýningar á Litlu lirfunni ljótu og Önnu og skapsveiflunum sem sýndar verða saman, og Hagamúsinni eftir Þorfinn Guðnason. Borgarleikhúsið mun kíkja í heimsókn á lokadegi hátíðarinnar (sun. 14/4) þar sem Bergur Þór, leikstjóri söngleiksins Matthildur, mun koma ásamt tveimur ungum leikurum úr sýningunni, en þau munu segja aðeins frá eigin upplifun af því að taka þátt í atvinnuleiksýningu. Í beinu framhaldi verður hægt að sjá bíósýningu á kvikmyndinni Matilda sem byggð er á frábærri sögu rithöfundarins Roalds Dahl eins og söngleikur Borgarleikhússins.

Dagskráin í heild sinni er á biopara­dis.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×