Menning

Pönkari inn við beinið

Sólveig Gísladóttir skrifar
Elmar er fluttur til Þýskalands þar sem hann hefur fengið fasta stöðu við óperuna í Stuttgart.
Elmar er fluttur til Þýskalands þar sem hann hefur fengið fasta stöðu við óperuna í Stuttgart. MYND/SIGTRYGGUR ARI
Elmar bíður jakkafataklæddur eftir blaðamanni og ljósmyndara í græna herberginu í Hörpu. Hann segist reyndar ekki hafa klætt sig upp á fyrir tilefnið heldur hafi hann verið að koma beint úr jarðarför.

„Ég geri töluvert af því að syngja í jarðarförum þegar ég kem heim í frí eða önnur verkefni. Ég fæ þá að stökkva inn í sönghópa eða er fenginn til að syngja sóló,“ segir Elmar og neitar því að söngur við slík tækifæri sé erfiður. „Maður lærir að brynja sig þó vissulega komi fyrir að maður fái kökk í hálsinn.“

Elmar hefur búið síðastliðin ellefu ár í Hollandi, fyrst við nám og síðar sem atvinnusöngvari. Hann hefur tekið að sér verkefni um allan heim og segir töluvert hark að vera lausráðinn óperusöngvari, því fylgi mikil ferðalög og óstöðugleiki. En nú hefur orðið breyting á högum hans því síðastliðið haust fékk hann fasta stöðu við Staatsoper í Stuttgart. „Þetta er samningur til næstu fjögurra ára. Ég er mjög ánægður og heppinn að fá fastráðningu við jafn virt óperuhús,“ segir Elmar sem kláraði fyrsta verkefni sitt í Stuttgart í desember. „Það var hlutverk prinsins í óperunni Ást til þriggja appelsína eftir Prokofjev.“

Sviðsskotinn í Violettu

Elmar hefur verið á Íslandi síðan í janúar við æfingar og sýningar á La Traviata eftir Verdi með Íslensku óperunni. Þar fer hann með hlutverk Alfredos, ástfangna unga mannsins sem fellur fyrir gleðikonunni Violettu sem sungin er af Herdísi Önnu Jónasdóttur.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég syng þessa óperu sem er tvímælalaust eitt af krúnudjásnum óperubókmenntanna og draumur hvers tenórs að fá að syngja hlutverk Alfredos. Þetta er ekki hlutverk sem maður hoppar beint út í heldur krefst það töluverðs undirbúnings, þetta hefur því verið heilmikil áskorun fyrir mig,“ segir Elmar sem hefur fengið glimrandi dóma fyrir frammistöðu sína.

Hlutverkið krefst töluverðra leikrænna tilburða. „Já, það er mikilvægt að leggja hjarta og sál í músíkina en þannig verður persónan trúverðug.“ Samspilið milli Alfredos og Violettu er þungamiðja verksins og augljóst að Elmar og Herdís Anna náðu vel saman á sviðinu. „Herdís Anna er frábær kollegi og það er rosalega auðvelt að vera sviðsskotinn í henni á meðan á sýningunni stendur. Það skiptir enda öllu að fá til baka frá mótsöngvaranum það sem maður gefur honum.“

Veiða og fara á tónleika

Elmar hefur alltaf verið duglegur að koma heim til Íslands þann tíma sem hann hefur búið erlendis.

„Ég hef komið heim reglulega, ekki aðeins vegna vinnu heldur líka til að sinna föðurhlutverkinu en dóttir mín, Alvilda Eyvör, býr hér hjá mömmu sinni,“ segir Elmar en hann og hin 15 ára Alvilda finna sér ýmislegt að gera saman.

„Okkur finnst ofsalega gaman að fara í leikhús eða tónleika en hún er mikið í músík sjálf, spilar á klarínett og selló. Á sumrin förum við saman að veiða og svo förum við í ferðalög um landið. Hún er líka dugleg að heimsækja mig og hefur komið út til mín einu sinni til tvisvar á ári og hefur líka komið til mín ef ég hef verið fastur í verkefni einhvers staðar úti í heimi.“

Tækninörd og búfræðingur

Það var enginn æskudraumur Elmars að verða söngvari enda lærði hann fyrst búfræði og síðar rafeindavirkjun. Hefur þetta nám nýst honum í lífinu?

„Allt sem maður tekur sér fyrir hendur nýtist manni. Þegar ég var um tvítugt vissi ég ekki hvað ég vildi gera í lífinu en þar sem ég er alinn upp úti á landi ákvað ég að fara í Bændaskólann á Hvanneyri og það er tvímælalaust einn besti tími sem ég hef upplifað. Ég var á heimavist, hitti fullt af skemmtilegu fólki sem ég er enn í sambandi við í dag, námið var hagnýtt og ég bý alltaf að því,“ segir Elmar sem eftir bændaskólann vildi halda áfram í námi.

Fyrir valinu varð rafeindavirkjun í Iðnskólanum en að því loknu starfaði hann við fagið, fyrst sem afleysingatæknimaður á RÚV og svo í sjö ár á rafeindaverkstæði hjá RARIK. „Ég vann sem rafeindavirki meðan ég lærði að syngja og alveg þangað til ég fór út til Hollands í söngnám.“

En er hann ekki gripinn í rafvirkjaverkefni í óperunni? „Nei, það hefur ekki gerst enn þá,“ segir hann hlæjandi en viðurkennir að hann hlaupi stundum undir bagga með vinum og fjölskyldu. „Ég er annars töluvert tækninörd, finnst gaman að fara í fagverslanir að skoða og kaupa til dæmis litlar stýritölvur sem hægt er að forrita. Ég sit oft yfir því á kvöldin, svona þegar ég er ekki að hnýta flugur.“

Tattúið engin fyrirstaða

Í uppsetningu Íslensku óperunnar á La Traviata er atriði þar sem Elmar klæðist aðeins sundskýlu. Þá sést vel fagurlega skreyttur kálfi Elmars sem er tattúveraður að stórum hluta. Það passar ekki beinlínis inn í þá staðalímynd sem flestir hafa af óperusöngvara.

„Ég fékk mér þetta tattú reyndar áður en ég byrjaði að syngja og er meðvitaður um að það er ekki gáfulegt fyrir sviðslistamann að vera útataður í tattúum. En ég er bara voða mikill pönkari inn við beinið og hann brýst út við ákveðnar aðstæður,“ segir Elmar sem er ekkert mikið fyrir staðal ímynd óperusöngvarans. „Mér finnst ekki mikið til hennar koma og finnst hún hálfgerð klisja. Ég geri eiginlega meira í því að brjóta hana upp og vera öðruvísi.“ Hann segist ekki enn hafa fengið athugasemdir um tattúið við uppfærslur á óperum. „En reyndar er heldur ekki algengt að maður þurfi að striplast með bera leggi í óperusýningum,“ segir hann brosandi.

Fílar Hatara

Elmar var í hljómsveitum á unglingsárum. Spilaði mest á gítar en söng með. Hlustaði á dauðaog þungarokk. „Ég hef alltaf haft mikla ástríðu fyrir tónlist og þegar ég byrjaði aftur seinna að sökkva mér í tónlistina var það á aðeins öðru sviði. Ég heillaðist af karla kórsmenningunni og var í karlakórum lengi og hreifst af klassískum söng.“ Hlustar hann þá mikið á klassíska tónlist?

„Mér finnst nú eiginlega best að hlusta bara á þögnina,“ svarar hann en viðurkennir að hann hlusti auðvitað líka mikið á tónlist og þá ekki bara óperutónlist. „Ég kveiki stundum enn þá á dauðarokkinu og finnst það hressandi. Það er hollt fyrir mann að geta fengið frí frá hinum ástfangna tenór með því að hlusta á eitthvað agressívt og þungt.“ Þá liggur beint við að spyrja Elmar hvað honum finnist um Hatara og Hatrið mun sigra? „Mér finnst það hrikalega kúl. Þetta eru listamenn sem eru að framkvæma listaverk á sviðinu. Ég er ekkert að spá í hvort þetta sé einhver ádeila. List er list, og hún á að fá að vera eins og hún er án þess að það þurfi að setja á hana einhverja merkingu.“

Björt framtíð

Elmar syngur í næstu tveimur sýningum La Traviata hér heima en þarf svo að snúa til Þýskalands í næstu verkefni sem eru ærin. „Framtíðin er bara nokkuð björt. Það er búið að skipuleggja næstu tvö ár hjá óperunni í Stuttgart en næst hefjast æfingar á Iphigenie frá Tauris eftir Gluck. Svo eru ýmis önnur verkefni í deiglunni sem ég hlakka til að takast á við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×