Innlent

Líkurnar á verkföllum meiri eftir blaðamannafundinn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Forseti ASÍ hefði viljað sjá róttækari breytingar á skattkerfinu í þágu hinna lægst launuðu.
Forseti ASÍ hefði viljað sjá róttækari breytingar á skattkerfinu í þágu hinna lægst launuðu. Vísir/Vilhelm
„Það eru ekki minni líkur á verkföllum eftir þennan dag en kröfur okkar snúa náttúrulega fyrst og fremst að atvinnurekendum og þeim verður þá bara fylgt eftir af meiri hörku,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ í samtali við fréttastofu um framhaldið í kjaraviðræðunum.

Drífa bjóst við því að stjórnvöld myndu ganga lengra í skattkerfisbreytingum en þau gerðu til að auka jöfnuð í samfélaginu. Drífa hefði fremur viljað sjá útfærsluna þannig að skattar yrðu hækkaðir á þá hæst launuðu til að lækka skatta á þá lægst launuðu. Það kemur henni á óvart að ekki hafi verið hróflað við tilfærslukerfum eins og barnabótum og vaxtabótum meira en þegar hafi verið gert.

„Það er mjög auðveld leið til þess að koma stuðningi þangað sem hans er þörf,“ segir Drífa sem hefur lagt mikla áherslu á aðkomu stjórnvalda í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Nú þegar stjórnvöld hafa sýnt á spilin og verkalýðsforystan lýst yfir sárum vonbrigðum er þá eitthvað til þess að tala um með það fyrir augum að liðka fyrir viðræðunum?

„Já, þau gætu náttúrulega komið með betri tillögur í skattamálum en ég sé ekki alveg hvernig framhaldið á þessum viðræðum á að vera,“ segir Drífa.

Aðspurð um þær væntingar sem hún hafði fyrir fundinn segist Drífa hafa búist við að tillögurnar yrðu meðal annars skattalækkun upp á 15.000 krónur á mánuði í staðinn fyrir þær 6.760 krónu skattalækkun fyrir tekjulægstu hópana sem stjórnvöld hafa boðað.

„Þau hafa vitað mjög vel hver okkar stefna er þannig að þau vissu svo sem alveg hvaða væntingar við höfðum,“ segir Drífa.

Til þess að fjármagna skattkerfisbreytingarnar hyggjast stjórnvöld afnema samsköttun hjóna. Drífa segir að það sé í sjálfu sér ágætis jafnréttisaðgerð vegna þess að samsköttun hjóna nýtist fyrst og fremst tekjuhæstu karlmönnunum í samfélaginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×