Sport

Iaquinta: Conor er ekki tilbúinn að deyja í búrinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Iaquinta lætur Khabin hafa fyrir því.
Iaquinta lætur Khabin hafa fyrir því. vísir/getty
Harðasti fasteignasali heims, Al Iaquinta, er meira en tilbúinn að berjast við Conor McGregor og efast ekkert um að hann myndi hafa betur gegn Íranum.

Iaquinta er svo sannarlega einn af þeim allra hörðustu. Hann gerði sér lítið fyrir og fór heilar fimm lotur með Khabib Nurmagomedov í apríl á síðasta ári. Það var sama hvað Khabib gerði. Hann gat ekki brotið Iaquinta.

Fasteignasalinn kláraði svo Kevin Lee í desember og hann hefur einnig unnið Diego Sanchez og Jorge Masvidal.

Iaquinta segist bera mikla virðingu fyrir Conor. Hann sé frábær bardagamaður og enginn sé betri í andlegum hernaði en Conor.





„Hann er hættulegur í búrinu og eltir bráðina. Þegar líður á bardaga og hann mætir mótspyrnu þá sérðu hann breytast. Ég sé fyrir mér að hann komi montinn á eftir mér en síðan breytist hann eins og bæði Khabib og Kevin Lee gerðu gegn mér,“ segir Iaquinta.

„Conor mun ekki líkjast sjálfum sér er hann áttar sig á því að hann sé með alvöru manni í búrinu. Hann mun þurfa að átta sig á því að hann þarf að drepa til þess að komast úr búrinu og ég held að hann sé ekki tilbúinn til þess að deyja. Hann á peninga og er með ýmislegt í gangi. Hann er ekki til í að leggja lífið undir.“

Iaquinta er eðlilega einn margra sem vill berjast við Conor og fá stóra tékkann í leiðinni. Conor gaf því annars undir fótinn að hann væri klár í að berjast við Cowboy Cerrone eftir að hafa horft á hann berjast um síðustu helgi.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×