Menning

Einar leitar að öðrum verkefnum

Andri Eysteinsson skrifar
Einn þekktasti rithöfundur Íslands, Einar Kárason, fékk ekki úthlutað listamannalaunum í ár.
Einn þekktasti rithöfundur Íslands, Einar Kárason, fékk ekki úthlutað listamannalaunum í ár. Vísir/GVA

Listamannalaunum var úthlutað í dag og líkt og áður hlaut mikill fjöldi listamanna úthlutað. Úr launasjóði rithöfunda var úthlutað 555 mánaðarlaunum en alls bárust 253 umsóknir um 2745 mánuði í launasjóðinn. Því var ljóst að meirihluti umsækjenda mun ekki fá úthlutað úr sjóðnum. Einn þeirra sem ekki fengu úthlutað í dag er verðlaunarithöfundurinn Einar Kárason.

Einar segir í samtali við Vísi að líklega þyki verk einhverra annarra rithöfunda merkilegri en sú sem hann skrifar. Hann hafi undanfarin ár fengið minna úr sjóðnum en hann hefur óskað eftir. Einar sem hefur í fjóra áratugi unnið það að aðalstarfi að skrifa fékk úthlutað sex mánaðarlaunum í fyrra og níu árið áður.

Einar, sem hefur skrifað hátt í þrjátíu bækur, hefur undanfarin ár hlotið listamannalaun og eru verk hans Íslendingum góðkunnug. Bækur hans hafa hlotið góða dóma og hefur hann verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í fjögur skipti, auk þess að hafa unnið til ýmissa verðlauna, til dæmis Íslensku Bókmenntaverðlaunin árið 2008, fyrir bókina Ofsa.

Feðginin gáfu út fjórar bækur á árinu

Einar segir að nú þurfi hann að finna sér eitthvað annað að gera fyrst hann hafi ekki fengið úthlutun í ár. Frá því að Einar hætti að fá greiðslur úr sjóðnum í fyrra hafi hann ekkert skrifað en þess í stað unnið margvísleg önnur verkefni.

Staðan í ár verði sú sama, það stoðar lítt að skrifa á meðan listamannalaunin eru engin. Einar sagðist þó ekki vera hættur að skrifa til frambúðar en á meðan staðan er svona er ekkert verk væntanlegt.

Tvær dætur Einars, þær Kamilla og Júlía Margrét, gáfu báðar út bækur á liðnu ári en voru líkt og faðir þeirra ekki á lista yfir þá sem hlutu listamannalaun. Kamilla gaf út bókina Kópavogskrónika og Júlía Margrét gaf út bækurnar: Drottningin á Júpíter- Absúrdleikhús Lilla Löve og Jarðarberjatungl.

Bækur systranna hlutu góða dóma en eins og áður sagði hlutu þær ekki náð í augum úthlutunarnefndar. Einar segir að líkt og hann kvarti þær systur ekki yfir því en óvíst er hvort þær gefi eitthvað út á árinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.