Erlent

Einn látinn og þúsund smituð vegna mengaðs vatns í Noregi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Tæplega 30 þúsund manns búa í sveitarfélaginu Askøy í Hörðalandi.
Tæplega 30 þúsund manns búa í sveitarfélaginu Askøy í Hörðalandi. Getty
Vatnsgeymir sem sér íbúum sveitarfélagsins Askøy í Hörðalandi á vesturströnd Noregs fyrir vatni er talinn innihalda E. Coli bakteríuna. Einn hefur látist vegna mengaða vatnsins og um tvö þúsund hafa veikst.

Síðustu mánuðina hafa íbúar sveitarfélagsins kvartað til yfirvalda vegna gruggugs og mislits drykkjarvatns. Á síðustu dögum hafa svo um tvö þúsund manns veikst og hefur það lýst sér í hita, uppköstum og niðurgangi. Nú hefur einn látist eftir að hafa innbyrt mengað vatnið.

Hinn látni var fluttur á spítala með verk í maga og þörmum en lést stuttu síðar.

Erik Vigander, upplýsingafulltrúi spítalans, segir leifar af kampýlóbakter hafa fundist í líkama hins látna. Vigander segir hinn látna hafa glímt við alvarleg undirliggjandi veikindi og því muni fara fram krufning til þess að skera úr um „nákvæma dánarorsök.“

Af þeim tvö þúsund sem veikst hafa eru 64 sem flutt hafa verið á spítala. Í 36 þeirra fundust leifar af kampýlóbakter.

Í síðustu viku lést eins árs gamalt barn á eyjunni. Dánarorsökin var sýking í meltingarvegi en ekki liggur fyrir hvort hún tengist mengaða vatninu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×