Enski boltinn

Skoraði tvö mörk í Meistaradeildinni í gær en baðst afsökunar bæði í leiknum og eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Son Heung-min þakkar fyrir allan stuðninginn með því að senda hjarta til stuðningsmanna Tottenham.
Son Heung-min þakkar fyrir allan stuðninginn með því að senda hjarta til stuðningsmanna Tottenham. Getty/Justin Setterfield
Son Heung-min skoraði tvívegis í sigri Tottenham á Rauðu Stjörnunni í Meistaradeildinni í gær en Suður-Kóreumaðurinn var enn að hugsa um Portúgalann Andre Gomes eftir leikinn í gær.

Son Heung-min bað Andre Gomes afsökunar í viðtölum við blaðamenn í Belgrad í gær. Það hefur ekkert farið milli mála að Son hefur liðið skelfilega eftir atvikið en bæði stjóri og liðsfélagar hans hafa sagt frá þjáningum Suður-Kóreumannsins.

Son Heung-min fékk samt ekki síður samúð en Andre Gomes eftir ökklabrotið hryllilega í leiknum á Goodison Park.





Brot Son hafði þær afleiðingar að Andre Gomes ökklabrotnaði illa í leik Everton og Tottenham um síðustu helgi. Son brotnaði algjörlega niður eftir atvikið en hann fékk að líta rautt spjald og spilaði ekki meira í leiknum ekki frekar en Andre Gomes.

„Þetta hafa verið erfiðir dagar. Ég geri mér alveg grein fyrir því hversu heppinn ég er að fá allan þennan stuðning frá stuðningsmönnum og liðsfélögunum,“ sagði Son Heung-min eftir leikinn í Meistaradeildinni í gær.

Þetta var algjört slys enda var Son Heung-min bara að fara í tæklingu og ætlaði aldrei að meiða Portúgalann. Rauða spjaldið hans var seinna dregið til baka eftir áfrýjun frá Tottenham.





„Ég verð að segja að mér þykir þetta virkilega leitt en ég varð samt sem áður að ná upp einbeitingu fyrir mitt lið. Ég varð að halda áfram því það voru réttu viðbrögðin eftir að hafa fengið allan þennan góða stuðning,“ sagði Son Heung-min.

Bæði mörk Son Heung-min komu á fjögurra mínútna kafla en Tottenham vann leikinn 4-0.



Athygli vakti líka að Son Heung-min fagnaði ekki fyrra markinu heldur horfði í myndavélina og virtist biðja Andre Gomes afsökunar í gegnum sjónvarpið. Það má sjá það hér fyrir neðan.



Klippa: Son baðst afsökunar eftir markið sitt


Andre Gomes sjálfur er kominn heim eftir aðgerðina og það lítur allt vel út upp á endurkomu að gera. Andre Gomes þakkaði líka öllum fyrir stuðninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×