Menning

Rut og Björn með tónleika og fyrirlestraröð

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Rut og Björn hafa lagt sitt af mörkum til að auðga menningarlífið í Fljótshlíðinni síðustu árin og halda því ótrauð áfram.
Rut og Björn hafa lagt sitt af mörkum til að auðga menningarlífið í Fljótshlíðinni síðustu árin og halda því ótrauð áfram. Fréttablaðið/Stefán
Rut Ingólfsdóttir og Björn Bjarnason standa fyrir tónleikum og fyrirlestraröð að Kvoslæk í Fljótshlíð, sem er þeirra annað heimili en hitt er í Háuhlíð. Þau segjast reyna að skipta tíma sínum sem jafnast milli sveitar og borgar. „Að Kvoslæk erum við að gera það sama og í bænum. Björn skrifar í Morgunblaðið og á netið og slær á sumrin stóran garð hér í Háuhlíð og enn stærri þar. Ég æfi mig, þýði bækur úr frönsku og fer á sumrin út í garð að huga að blómum og reyta arfa á báðum stöðum,“ segir Rut.

Að Kvoslæk, þar sem áður var hlaða, er nú veglegur tónleikasalur. „Þegar við keyptum jörðina með öðrum á sínum tíma voru húsin ónýt og okkur sagt að við gætum hirt þau ef við vildum,“ segir Björn. „Við byrjuðum á því að gera íbúðarhúsið upp og ætluðum alltaf að gera upp gömlu útihúsin en fengum ekki smiði. Eitt haustið í vondu veðri fuku útihúsin út í móa og þá var auðséð að það var ekki hægt að gera við þau. Við vorum svo heppin að Sigurður Oddsson, sem þá var þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, hafði mælt og teiknað gömlu húsin þannig að hægt var að byggja þau á ný nákvæmlega eins og þau voru.“

„Mig langaði til að hafa þarna aðstöðu til að halda tónleika,“ segir Rut. „Hlaðan er niðurgrafin og djúp og því verður hátt til lofts og rýmið er mikið. Það er ótrúlega góður hljómburður í þessum sal.“

Björn segir miklar breytingar hafa orðið í Fljótshlíðinni frá því að þau Rut bjuggu þar um sig. „Ferðamannastraumurinn er mikill, hótel allt í kring og aðstaða fyrir húsbíla og sumarbústaðir verða stöðugt fleiri. Einhver sagði að það væri útihátíð um hverja helgi í Fljótshlíðinni.“

Tónleikar með fólki úr sveitinni

Óhætt er að segja að þau hjón hafi lagt sitt af mörkum til að auðga menningarlífið í sveitinni. Rut hefur í nokkur ár haldið tónleika að Kvoslæk og Björn stendur þetta árið fyrir fyrirlestraröð um fullveldið. Fyrstu tónleikarnir að Kvoslæk voru haldnir árið 2011. „Þá héldum við Richard Simm píanóleikari fyrstu tónleikana. Síðan þá höfum við haldið á hverju ári nokkra tónleika. Oftast koma þá hljóðfæraleikarar frá Reykjavík en í fyrra kom einnig fram ungt fólk sem býr á þessu svæði,“ segir Rut.

Fernir tónleikar eru á dagskrá að Kvoslæk á þessu ári. Þeir fyrstu eru í kvöld, laugardagskvöldið 30. júní, klukkan 20.30 og á efnisskrá eru íslensk lög: Lindin, Vorgyðjan kemur, Gígjan og Dagný, svo nokkur séu nefnd. Flytjendur eru söngkonurnar Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir og Þóra Sigurborg Guðmannsdóttir. Glódís M. Guðmundsdóttir leikur með þeim á píanó. Eyrún Á. Gylfadóttir býður gesti velkomna með harmoníkuleik. Tónleikar verða síðan aftur að Kvoslæk 18. ágúst, en þar munu bræðurnir Bjarni og Einar Þór Guðmundssynir syngja við undirleik Guðjóns Halldórs Óskarssonar.

30. september munu Rut og vinir hennar leika verk eftir Mozart, Mendelssohn og Jón Ásgeirsson og 6. október syngur sönghópurinn Öðlingar þekkt lög undir stjórn Guðjóns Halldórs Óskarssonar.

Í fyrra fór Rut í mikið samstarf með rúmlega fjörutíu manns í kirkjukórum Breiðabólsstaðarprestakalls og Odda- og Þykkvabæjarkirkna og hélt hópurinn Bach-tónleika í þremur kirkjum. „Margir sem ég vann með þá koma fram á tónleikunum þetta árið, þrennir tónleikar af fernum eru eingöngu með fólki úr sveitinni,“ segir Rut.

Sjónum beint að fullveldinu

Um fyrirlestraröðina að Kvoslæk þar sem sjónum er beint að fullveldinu segir Björn: „Fullveldisnefnd auglýsti eftir umsóknum um verkefni og tekið var fram að æskilegt væri að þau dreifðust um landið. Ég hugsaði að skemmtilegt væri að vera með verkefni hér í Fljótshlíðinni og varð þá sérstaklega hugsað til þeirra Fjölnismanna Tómasar Sæmundssonar og Jónasar Hallgrímssonar en Tómas var prestur á Breiðabólsstað. Lárus Ágúst Bragason, sögukennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands, er með mér í þessu verkefni og við fengum styrk úr fullveldissjóðnum, bjuggum til dagskrá og fengum prýðilega fyrirlesara til að koma hingað. Rangárþing eystra og Fljótshlíðin eru með þessum viðburðum tengd inn í þá heildarmynd sem nefndin var að sækjast eftir, að dagskrá væri víða um land.“

Fyrirlestrarnir að Kvoslæk eru fjórir og einn hefur þegar verið haldinn en þar talaði Sveinbjörn Rafnsson um upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og Finn Magnússon og Bjarna Thorarensen. Hinn 28. júlí mun Sveinn Yngvi Egilsson flytja erindi um félagslega þýðingu bókmennta í þjóðernislegu samhengi. Síðan kemur að Marion Lerner sem 25. ágúst ræðir um menntun og vísindi í þágu þjóðar og þá sérstaklega Tómas Sæmundsson og ferðabók hans. Marion er þýsk, kennir við Háskóla Íslands og talar prýðilega íslensku. Hún er að þýða ferðabók Tómasar yfir á þýsku og skrifar einnig skýringar. Það kemur síðan í hlut Gunnars Þórs Bjarnasonar að slá botninn í fyrirlestraröðina 8. september með erindi um Tómas Sæmundsson, sjálfstæðisbaráttuna og fullveldið 1918.

Hugað að jólatónleikum

Rut segir fyrirlestraröðina um fullveldið og tónleikana að Kvoslæk tengjast á skemmtilegan hátt þótt ekki hafi verið sérstaklega hugað að því við undirbúninginn. „Fyrirlestrarnir tengjast árinu 1918, en það voru svo að segja engin tónskáld á Íslandi á þeim tíma. Þeir listamenn sem koma fram á tónleikunum völdu efnisskrána sjálfir og í ljós kom að þeir eru allir með íslenskt prógramm. Þarna eru alls konar perlur eftir menn eins og til dæmis Árna Thorsteinsson, Eyþór Stefánsson og Jón Ásgeirsson sem verður níræður í október. Þótt þessi lög séu samin eftir árið 1918 þá eru þau einstaklega þjóðleg. Í mínum huga tengjast þau fullveldisafmælinu á afar skemmtilegan hátt.“

Rut er þegar farin að huga að jólatónleikum. „Eftir vel heppnaða Bach-tónleika nú á föstunni með kórum úr þremur prestaköllum langar okkur til að endurtaka leikinn og halda jólatónleika með einsöngvurum sem búa á svæðinu og halda að nýju stóra tónleika á föstunni. Bach-tónleikarnir voru haldnir í þremur kirkjum og þessir verða í öðrum þremur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×