Sport

Bað bestu knattspyrnukonu heims um að „twerka“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hegerberg hrósaði sigri í valinu um bestu knattspyrnukonu heims.
Hegerberg hrósaði sigri í valinu um bestu knattspyrnukonu heims. Aurelien Meunier/Getty
Plötusnúðurinn Martin Solveig hefur vakið reiði og hneykslan meðal margs knattspyrnuáhugafólks fyrir að biðja knattspyrnukonuna Ödu Hegerberg um að „twerka“ eftir að hún tók við Gullknettinum og var þar með krýnd besta knattspyrnukona heims.

Hin 23 ára gamla Hegerberg, sem er norsk og spilar með Lyon í Frakklandi, var fljót að bregðast við þessari undarlegu uppástungu plötusnúðarins og sagði einfaldlega „nei.“

Ekki eru allir sem þekkja „twerkið“ en samkvæmt Oxford-orðabókinni er það „dans sem dansaður er við vinsæla tónlist á kynferðislega ögrandi hátt og felur í sér þrýstnar mjaðmahreyfingar í djúpri hnébeygjustöðu.“

Því má telja eðlilegt að ekki hafi öllum þótt hugmynd Solveig viðeigandi.

Meðal þeirra sem furðuðu sig á undarlegu háttalagi Solveig var knattspyrnumaðurinn ungi Kylian Mbappé en í myndbandi af atvikinu má sjá hann gersamlega orðlausan af undrun yfir atvikinu.

Hegerberg átti frábært tímabil í Frakklandi og skoraði meðal annars í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í 4-1 sigri Lyon á Wolfsburg.

Hér að neðan má sjá nokkur tíst netverja, sem margir hverjir eru afar óánægðir með Solveig, um uppátæki plötusnúðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×