Erlent

100 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Víða um heim er þess minnst í dag að 100 ár eru frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar sem lauk formlega þann 11. nóvember árið 1918 er Þjóðverjar og Bandamenn skrifuðu undir vopnahléssamning.

Athafnir til þess að minnast loka styrjaldarinnar hófust í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en fjölmargir hermenn frá þessum ríkjum tóku þátt í styrjöldinni. Þá var loka styrjaldarinnar einnig minnst í Indlandi en 74 þúsund indverskir hermenn létust í stríðinu.

Síðar dag munu 70 þjóðarleiðtogar, þar á meðal Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, Vladimir Pútín Rússlandforseti, Emmanuel Macron, forseti Frakklands og Angela Merkel Þýskalandskanslari, minnast loka styrjaldarinnar í París í Frakklandi en athöfnin verður haldinn við Sigurbogann.

Stríðið, sem kallað var Stríðið sem átti að binda endi á öll stríð, stóð yfir frá árinu 1914 til 1918. Það hófst í Evrópu á milli Miðveldanna svokölluðu, Þýskalands og Austurríki-Ungverjalands, og Bandamanna, Frakka, Breta og Rússa.

Stríðið breiddist svo út um heimsbyggðina en alls er talið að 16 milljónir, þar af níu milljón hermenn og sjö milljónir almennra borgara, hafi látist í stríðinu. Ítarlega má fræðast um stríðið á vef BBC.

Ýmislegt hefur verið gert til að minnast stríðsloka. Á meðal þess er ný heimildarmynd eftir Peter Jackson, leikstjóra Lord of the Rings kvikmyndanna. Eyddi hann talsverðum tíma í að taka myndir frá stríðinu og koma þeim í nútímalegan búning með nýjustu tækni.

Útkoman er nokkuð mögnuð, eins og sjá má hér að neðan.


Tengdar fréttir

Mætti ekki til minningarathafnar vegna rigningar

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, mætti ekki til minningarathafnar um þá bandaríkjamenn sem létust í fyrri heimsstyrjöldinni. Hvíta húsið segir veðrinu um að kenna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.