Enski boltinn

Þrettán ár síðan að Newcastle eyddi mest í einn leikmann: Metið sem stendur enn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen kynntur til leiks sem nýr leikmaður Newcastle fyrir þrettán árum síðan.
Michael Owen kynntur til leiks sem nýr leikmaður Newcastle fyrir þrettán árum síðan. Vísir/Getty
Stóru fótboltafélög heimsins eru flest vön því að slá metið yfir dýrasta leikmann félagsins á hverju ári.

Verð fótboltamanna hefur hækkað ótrúlega síðustu ár og því er það stórmerkilegt að met eins liðs í ensku úrvalsdeildinni sé orðið þrettán ára gamalt.

Í dag 30. ágúst eru nefnilega liðin heil þrettán ár síðan að Newcastle United gerði Michael Owen að dýrasta leikmanni félagsins.





Á þessum degi árið 2005 þá keypti Newcastle United Michael Owen frá spænska stórliðinu Real Madrid fyrir sautján milljónir punda.

Owen tók þar með titilinn dýrasti leikmaðurinn í sögu Newcastle af Alan Shearer og hefur haldið honum síðan. Shearer hafði verið sá dýrasti hjá félaginu í níu ár.

Michael Owen sló í gegn sem leikmaður Liverpool frá 1996 til 2004 en hafði verið í eitt tímabil hjá Real Madrid.

Liverpool vildi kaupa Owen aftur en var ekki tilbúið að borga svona mikið fyrir hann. Real Madrid keypti hann á átta milljónir punda frá Liverpool um miðjan ágúst 2004 eða aðeins rúmum tólf mánuðum fyrr.





Michael Owen bryjaði vel hjá Newcastle og skoraði 7 mörk í fyrstu 8 deildarleikjunum en varð svo fyrir því að ristarbrotna og lék aðeins einn leik til viðbótar á leiktíðinni.

Owen sleit síðan krossband í fyrsta leik Englands á HM 2006 og missti af nær öllu 2006-07 tímabilinu.

Owen lék tvö tímabil í viðbót með Newcastle, skoraði 11 mörk í 29 leikjum 2007-08 og 8 mörk í 28 leikjum 2008-09.

Þegar fimm ára samningur Michael Owen rann út þá samdi hann við Manchester United og spilaði þar næstu tímabil. Hann lagði svo skóna á hilluna sem leikmaður Stoke City eftir 2012-13 tímabilið.

Dýrustu leikmennirnir í sögu Newcastle United:

1. Michael Owen, frá Real Madrid - 17 milljónir punda 2005

2. Alan Shearer, frá Blackburn Rovers - 15 milljónir punda 1996

3. Georginio Wijnaldum, frá PSV Eindhoven - 14,5 milljónir pund 2014

4. Aleksandar Mitrovic, frá RSC Anderlecht - 13 milljónir pund 2014

5. Florian Thauvin, frá Olympique Marseille - 13 milljónir pund 2014


Tengdar fréttir

Liverpool framherjarnir eru ennþá þeir yngstu

Raheem Sterling skoraði á dögunum sitt fimmtugasta mark í ensku úrvalsdeildinni og aðeins tíu leikmenn í sögu deildarinnar hafa verið yngri á slíkum tímamótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×