Innlent

Eldur í klæðningu Perlunnar

Birgir Olgeirsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa

Slökkvilið hefur verið kallað út vegna elds í klæðningu utan á einum af hitaveitutönkum Perlunnar. Búið er að rýma bygginguna og verður Perlan ekki opnuð aftur í dag. Engin slys urðu á fólki.

Allt tiltækt slökkvilið er á staðnum og hefur allt starfsfólk slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu verið kallað út. Eldur er á milli þilja í einum af tönkum byggingarinnar en hann er tómur. Á að setja þar upp stjörnuver eftir því sem Vísir kemst næst en heildarkostnaður við sýninguna er um tveir milljarðar króna. 

Voru iðnaðarmenn að störfum í tanknum þegar eldurinn kom upp. Ljóst er að tjónið er mikið þar sem bæði reykurinn sem og vatnið sem dælt er inn til að slökkva valda tjóni á tanknum og inni í Perlunni.

Birgir Finnsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að eldurinn hafi líklegast kraumað þarna í einhvern tíma áður en slökkviliði kom á vettvang.

Ekki er mikill eldur en mikinn reyk leggur frá tanknum. Hefur slökkviliðið áhyggjur af því að eldurinn geti breiðst út þar sem erfitt er að komast að vegna járnklæðningarinnar utan á Perlunni.

Búið er að rífa eina plötu af utan á tankinum þar sem slökkviliðsmenn sprauta vatni inn. Þá eru reykkafarar inni í tanknum auk þess sem einnig er unnið ofan frá á þaki byggingarinnar.

Birgir segir slökkviliðið leggja áherslu á það að verja bygginguna og koma í veg fyrir að eldurinn breiðist út. Um mjög erfitt verkefni er að ræða.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá vinnu slökkviliðsins á vettvangi.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:40.

Vísir/Heimir
Mikill viðbúnaður er á staðnum en allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er á vettvangi. vísir/heimir
Mikinn reyk leggur frá tanknum en ekki er mikill eldur. vísir/heimir
Slökkviliðsmenn hafa rifið af klæðningunni til að komast betur að en mikinn reyk leggur frá tanknum. vísir/heimir
Reykur er byrjaður að koma undan klæðningunni á tanknum. vísir/heimir


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.