Innlent

Fjölmörg ný íbúðarhús á Húsavík með tilkomu kísilversins á Bakka

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Uppbyggingin í Norðurþingi samhliða framkvæmdunum við kísilver PCC á Bakka hafa gengið vel. Tuttugu og tvær íbúðir eru nú í smíðum eða tilbúnar á Húsavík og í sumum tilfellum eru íbúar að flytja inn. Sveitarstjóri segir að frekari uppbygging sé í vændum.

Það styttist í að kísilofn PCC á Bakka verði gangsettur en búist er við að það verði um miðjan mánuðinn.Fleiri en hundrað starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa og eru flestir þeirra úr Norðurþingi. Tilkoma kísilversins á Bakka hefur haft gríðarlega góð áhrif á Húsavík. Fjölmargar íbúðir eru í byggingu og fyrstu íbúarnir fluttir inn. 

„Þessi verksmiðja hefur haft mjög mikil áhrif á svæðið og til að mynda að þá er dótturfyrirtæki þeirra að byggja hérna tuttugu og tvær íbúðir, sunnarlega í bænum og fyrstu íbúarnir eru fluttir inn fyrir nokkrum dögum og það skiptir miklu máli.  Það hefur verið erfitt ástand á húsnæðismarkaðnum þannig að hér eru hjólin farin að snúast og fleiri verkefni misstór í pípunum,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. 

Varnarbarátta í langan tíma

Fleiri byggingar eru á teikniborðinu og segir sveitarstjórinn að, að minnsta kosti tvær þeirra verði reistar á þessu ári.Þá er einnig í kortunum að reisa fjölbýlishús á Húsavík og einnig hefur verið samþykkt ný hótelbygging á Húsavíkurhöfða, nærri þeim stað þar sem sjóböðin eru í uppbyggingu.„Það er norskt fyrirtæki sem er að hanna og kanna möguleikann á uppbyggingu hótels hérna sem er mjög spennandi verkefni,“ segir Kristján.Kristján segir að reynt sé að lokka fleiri lítil og millistór fyrirtæki til Húsavíkur.

„Þú getur tekið hvaða sveitarfélag sem er, það eru allir að reyna að búa þannig um hnútana að það sé fjölbreytt atvinnulíf og auðvitað skiptir iðnaðaruppbyggingin á Bakka okkur mjög miklu máli. Stefnan hér er að reyna að loka lítil og millistór fyrirtæki inn á þessar iðnaðarlóðir og við treystum á það að það gerist,“ segir Kristján. Kristján segir að uppbyggingin hafi haft jákvæð áhrif á bókhald sveitarfélagsins.

„Þetta hefur auðvitað létt undir með okkur. Það er búin að vera varnarbarátta hér í langan tíma og ég vil meina að varnarsigur hafi unnist hér á síðustu árum þannig að það er gleðilegt núna að það sé aðeins bjartara framundan,“ segir Kristján.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×