Íslenski boltinn

Blikar byrja af krafti │ Tvö mörk á tveimur mínútum tryggðu KA sigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Blikar fagna sigri síðasta sumar.
Blikar fagna sigri síðasta sumar. Vísir.

Breiðablik fer frábærlega af stað í Lengjubikarnum þetta tímabilið en liðið hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína með markatölunni 16-0. Blikar unnu Magna 3-0 í dag.

Elfar Freyr Helgason kom Blikum yfir strax á 12. mínútu og Andri Rafn Yeoman tvöfaldaði forystuna fyrir lok fyrri hálfleiksins. Aron Bjarnason kláraði svo leikinn endanlega í uppbótartíma.

KA vann dramatískan sigur á KR þar sem sigurmarkið skoraði Frosti Brynjólfsson með glæsilegu marki, en hann er fæddur árið 2000.

Akureyringar höfðu komist yfir strax á 9. mínútu með marki frá Elfar Árna Aðalsteinssyni. Óskar Örn Hauksson svaraði fyrir KR á 24. mínútu og hann var svo aftur á ferðinni í seinni hálfleik og kom KR-ingum yfir.

KA menn skoruðu hins vegar tvö mörk á tveggja mínútna kafla, það fyrra frá Daníel Hafsteinssyni og svo tryggði Frosti þeim sigurinn eins og áður segir.

Breiðablik er á toppi riðils 2 með fullt hús stiga að þremur leikjum loknum. KA menn eru einnig með fullt hús, en markatala þeirra er ekki alveg eins góð og Blika og því í öðru sætinu.

KR er með fjögur stig eftir jafntefli gegn Magna í síðustu umferð. Þróttur R. og ÍR eru án stiga á botninum en þau mætast innbyrðis á morgun.

Í riðli 4 vann Grindavík sigur á Selfossi og er með sjö stig á toppi riðilsins.

Jóhann Helgi Hannesson kom Grindvíkingum yfir á 26. mínútu og voru gestirnir yfir í hálfleik. Það var svo fyrrum Grindvíkingurinn Gilles Mbang Ondo, sem er á reynslu hjá Selfossi, sem jafnaði leikinn á 76. mínútu.

Færeyingurinn Rene Joensen tryggði Grindavík svo sigurinn á 81. mínútu.

Grindavík hefur þriggja stiga forystu á FH og Fylki, en leikur Fylkis og Þórs hófst núna klukkan 17:00. Selfoss er hins vegar á botninum án sigurs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.