Páll Hreinsson hæstaréttardómari og dómari hjá EFTA dómstólnum hefur beðist lausnar sem dómari við Hæstarétt. Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti gat Páll ekki tekið lengra leyfi og þurfti því að velja á milli þess að koma aftur heim til Íslands eða að biðjast lausnar. Í samtali við Vísi staðfesti Páll að hann baðst lausnar í júlí.
„Ég baðst lausnar með fyrirvara núna í sumar, frá og með 15.september. Ég fékk leyfi frá störfum í sex ár frá 15.september árið 2011 og það má ekki veita lengra leyfi samkvæmt lögum um dómstóla. Leyfið mitt er búið og þá lét ég um leið af störfum,“ segir Páll í samtali við Vísi. Hann segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að biðjast lausnar frá Hæstarétti
„Ég er afskaplega ánægður.“
Páll var skipaður hæstarréttardómari árið 2007. Hann var skipaður dómsstjóri við EFTA-dómstólinn árið 2011 eftir tilnefningu Össurar Skarphéðinssonar. Hann var svo aftur endurskipaður árið 2014 til sex ára í viðbót, frá 1.janúar 2015.

