Erlent

Trump segist fórnarlamb falskrar skýrslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Í tísti í dag sagði Trump að hann væri fórnarlamb skýrslunnar og sagði hana vera "falskar fréttir“.
Í tísti í dag sagði Trump að hann væri fórnarlamb skýrslunnar og sagði hana vera "falskar fréttir“. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist vera fórnarlamb falsaðrar skýrslu fyrrverandi bresks njósnara sem rannsakaði meint tengsl Trump við yfirvöld í Rússlandi. Í ljós hefur komið að Hillary Clinton, mótframbjóðandi Trump, kom með beinum hætti að fjármögnun skýrslunnar. Meðal þess sem fram kom í skýrslunni var að yfirvöld í Rússlandi ættu myndband af Trump með vændiskonum á hóteli í Moskvu frá árinu 2013 og að framboð hans hefði starfað með yfirvöldum þar í forsetakosningunum.

Í tísti í dag vitnaði Trump í umfjöllun Fox News um aðkomu Clinton, sem kom fyrst fram í umfjöllun Washington Post.



Þar sagði Trump að hann væri fórnarlamb skýrslunnar og sagði hana vera „falskar fréttir“.

Í umfjöllun Washington Post kemur fram að lögmenn Clinton og miðstjórnar Demókrataflokksins komu að gerð skýrslunnar. Með því að ráða fyrirtækið Fusion GSP til að grafa upp upplýsingar um Donald Trump. Fyrirtækið réð svo njósnarann Christopher Steele.

Cristopher Steele starfaði á árum áður í Rússlandi fyrir bresku leyniþjónustuna. Upplýsingum sem hann aflaði var safnað saman í áðurnefnda skýrslu.

Sjá einnig: Frásagnir af gylltum sturtum og kúgunum Rússa „nornaveiðar“

Það hefur þó lengi legið fyrir að upprunalega réð mótframbjóðandi Trump í forvali Repúblikanaflokksins Fusion GPS til að grafa upp upplýsingar um Trump. Eftir að Trump vann forvalið tóku demókratar við kyndlinum. Eftir að Trump vann forsetakosningarnar réð Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, Steele um tíma til að halda rannsókn sinni áfram. Honum var sagt upp þegar fjölmiðlar opinberuðu hver hann væri.

Það sem er nýtt er að framboð Clinton kom beint að því að ráða Fusion GPS í gegnum lögfræðinga og að Steele kom ekki að gerð skýrslunnar fyrr en eftir það.

Allt þar til að blaðamenn Washington Post komust yfir gögn sestaðfestu að lögmenn Clinton og DNC réðu fyrirtækið Fusion GPS, sem réð svo Steele, höfðu starfsmenn Clinton þvertekið fyrir að hafa að nokkru leyti komið að skýrslunni umdeildu.

Samkvæmt upplýsingum AP fréttaveitunnar leitaði Fusion GPS til demókrata og bauð þeim að halda fjármögnun rannsóknarinnar áfram. Í bréfi frá fyrirtækinu stóð að upprunalega hefði það verið ráðið af „einum eða fleiri andstæðingum“ Trump í forvalinu.

Hlutar skýrslunnar hafa verið staðfestir, samkvæmt fjölmiðlum ytra, en það frásögnin um vændiskonurnar hafa ekki verið staðfestar.

Donald Trump hefur ávallt neitað því að hann og framboð hans hafi starfað með yfirvöldum í Rússlandi í aðdraganda kosninganna. Hann hefur einnig gagnrýnt þá niðurstöðu leyniþjónusta Bandaríkjanna og FBI að yfirvöld í Rússlandi hafi beitt tölvuárásum og fjölmörgum öðrum aðferðum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar og að hjálpa Trump að vinna.

Nokkrar rannsóknir standa nú yfir á afskiptum Rússa og mögulegri aðkomu framboðs Trump.


Tengdar fréttir

Mueller krefst gagna frá Hvíta húsinu

Umdeildar athafnir Donalds Trump í embætti eru á meðal viðburða sem sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins vill fá gögn um frá Hvíta húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×