Innlent

Grunsamlegar mannaferðir í Hafnarfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í miðborginni í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í miðborginni í nótt. Vísir/KTD
Dyraverðir á bar í miðborg Reykjavíkur óskuðu eftir aðstoð lögreglunnar upp úr miðnætti eftir að kona hafði veist að einum þeirra. Er lögreglumenn komu á vettvang varð þeim ljóst að konan hafði sparkað í höfuð dyravarðarins og var hún handtekin og vistuð í fangageymslu. Hún verður yfirheyrð síðar í dag vegna málsins.

Þá var tilkynnt um innbrot í bifreiðar í Vesturbæ Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan 02:00 í nótt. Að sögn lögreglunnar er lítið vitað um málið að svo stöddu og þannig óljóst hvort einn eða fleiri þjófar hafi þarna verið á ferðinni. Þjófurinn sem farið hafði inn í bíla í Breiðholti um klukkan 04:00 var hins vegar handtekinn. Sá sem tilkynnti um málið hafði náð að yfirbuga þjófinn og hélt honum þangað til lögreglumenn komu á vettvang.

Það var svo um klukkan hálf fjögur sem lögreglu barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir við fyrirtæki í Hafnarfirði. Hinir grunsamlegu menn voru enn á vettvangi þegar lögreglan kom á svæðið og veitti hún bifreiðinni sem þeir óku eftirför. Bæði ökumaður og farþegi bílsins voru handteknir og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Farþeginn var vistaður í fangageymslu þar sem hann er grunaður um að hafa farið áður inn í fyrirtæki í Hafnarfirði. Að lokinni sýnatöku verður ökumaður einnig vistaður í fangageymslu vegna frekari rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×