Erlent

„Krókódíllinn“ nær völdum í Simbabve með aðstoð hersins

Atli Ísleifsson skrifar
Emmerson Mnangagwa er kallaður Krókódíllinn.
Emmerson Mnangagwa er kallaður Krókódíllinn. Vísir/AFP
Stjórnarflokkurinn í Simbabve, Zanu PF, hefur greint frá því að Emmerson Mnangagwa hafi tekið við embætti forseta landsins til bráðabirgða eftir að herinn setti Robert Mugabe í stofufangelsi.

Hinn 93 ára Mugabe rak Mnangagwa úr embætti varaforseta landsins þann 6. nóvember og er talið að það hafi verið gert í þeim tilgangi að greiða leið eiginkonunnar, Grace Mugabe, til að taka við af Mugabe síðar meir.

Mnangagwa, sem er 75 ára, hefur verið einn nánasti samstarfsmaður Mugabe frá því að hann tók við stjórn landsins árið 1980. Mnangagwa hefur gengið undir nafninu „Krókódíllinn“ þar sem hann leiddi uppreisnarhópinn „Crocodile Gang“ í sjálfstæðisbaráttunni gegn bresku nýlenduherrunum á sínum tíma. Á þessum tíma var hann handtekinn, pyndaður, og kynntist svo Robert Mugame þegar hann sat í fangelsi eftir að hafa hlotið tíu ára dóm.

Tók þátt í ofsóknum

Talið er að Mnangagwa hafi tekið virkan þátt í ofsóknum gegn hvítum jarðeigendum á áttunda áratugnum og hreinsusum á Ndebele-fólki í landinu. Er talið að um 20 þúsund hafi látið lífið í hreinsununum.

Hjónin Robert og Grace Mugabe.Vísir/AFP
Mnangagwa var skipaður nánasti ráðgjafi Mugabe árið 1977 og hefur gegnt fjölda ráðherraembætta frá því að landið varð sjálfstætt. Hann var gerður að varaforseta að loknum kosningunum 2013.

Óttaðist um líf sitt

Mugabe rak Mnangagwa svo úr embætti í byrjun mánaðar þar sem hann sakaði varaforsetann um að skipuleggja valdarán. Mnangagwa sagist þá óttast um líf sitt og flúði land. 

Talið er að Grace Mugabe hafi haft sitt að segja um brottrekstur Mnangagwa en barátta hefur staðið milli þeirra um hver eigi að taka við stjórn Simbabve eftir Robert Mugabe. Greint var frá því í dag að Grace Mugabe hafi flúið til Namibíu.


Tengdar fréttir

Segja yfirtökuna ekki vera valdarán

Her Zimbabve segir að þrátt fyrir að hann hafi tekið yfir ríkisútvarp landsins sé ekki um valdaránstilraun að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×