Erlent

Fundu 1,7 tonn af kókaíni í kaf­bát á miðju At­lants­hafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Rúm 1,7 tonn af kókaíni fundust í kafbátnum, sem sökk í slæmu veðri þegar til stóð að draga hann í land.
Rúm 1,7 tonn af kókaíni fundust í kafbátnum, sem sökk í slæmu veðri þegar til stóð að draga hann í land. Sjóher Portúgal

Portúgalskir sjóliðar og lögreglumenn stöðvuðu á dögunum eins konar kafbát sem notaður er til fíkniefnasmygls yfir Atlantshafið. Um borð fundust fjórir menn og 1,7 tonn af kókaíni en þetta er í annað sinn á árinu sem Portúgalar stöðva bát sem þennan.

Umræddir bátar mara í hálfu kafi og eru þeir notaðir til að smygla fíkniefnum frá Suður-Ameríku til Evrópu.

Í mars stöðvuðu Portúgalar kafbát um 2.200 kílómetra frá landi en þar um borð fundust rúm sex tonn af kókaíni.

Í tilkynningu frá sjóher Portúgal var nýjasti báturinn stöðvaður þann 29. október í um 1.852 kílómetra fjarlægð frá Lisbon, svo gott sem á miðju Atlantshafi. Reynt var að draga kafbátinn til hafnar en hann er sagður hafa sokkið vegna slæms veðurs.

Í frétt BBC er vísað í tilkynningu frá lögreglunni í Portúgal en þar segir að yfirvöldum hafi borist upplýsingar um að verið væri að sigla kafbáti fullum af fíkniefnum til Evrópu og var herskip sent til að finna hann.

Aðgerðin er sögð hafa notið stuðnings frá Bretlandi og Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×