Innlent

Segir formannskosningu SUS hafa gengið of langt

Birgir Olgeirsson skrifar
Ingvar Smári Birgsson, nýkjörinn formaður SUS.
Ingvar Smári Birgsson, nýkjörinn formaður SUS.
„Ég gerði sjálfur athugasemd við þetta við kjörbréfanefndina,“ sagði Ingvar Smári Birgisson, nýkjörinn formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, í Harmageddon í morgun þar sem farið var yfir dramatískan formannsslag sem háður var á landsþingi SUS á Eskifirði um liðna helgi.

Ingvar hafði betur í baráttunni við Ísak Einar Rúnarsson en kosningin sjálf átti sér stað í gær. Vísir hafði fjallað um lögheimilisflutninga fyrir landsþingið en kjörbréfanefnd gerði athugasemd við þá sem höfðu fært lögheimili sitt rétt fyrir landsþingið.

„Ég hef ekki alveg komist til botns í þessu sjálfur, enda mikið að gera á kjörstað en það sem mér skilst að hafi verið málið var að kjörbréfanefnd gerði athugasemd við þá sem færðu lögheimili,“ sagði Ingvar Smári í Harmageddon.

Kjósendur spurðir hvar þeir ættu raunverulega heima

Hann var spurður hvort að það færi gegn lögum SUS að færa lögheimili fyrir kosningar. Ingvar sagðist ekkert vita um það enda hann ekki komið nálægt því. „Mér skilst að allir hafi fengið að kjósa sem gerð var athugasemd við vegna lögheimilisflutninga. Í einhverjum tilvikum var fólk spurt hvort það ætti raunverulega heima á þeim stað sem það var skráð á,“ sagði Ingvar.

Hann sagðist halda að allir hafi fengið að kjósa sem færðu lögheimili og það hafi því ekki verið einhver fyrirstaða í kosningunum.

„Þetta reyndar kom niður á báðum framboðum og fólk var ekki sátt við það. Ég gerði sjálfur athugasemd við þetta við kjörbréfanefndina,“ sagði Ingvar.

Fyrir landsþingið hafði Ísak Einar lagt undir sig fjölda sæta hjá Heimdalli, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, og var hans stuðningsfólk því með mun fleiri aðalsæti á þinginu. Þv hefðu átt að vera fleiri atkvæði á bak við hann og á brattann að sækja fyrir Ingvar.

Greidd voru 448 atkvæði en Ingvar Smári fékk 222 af gildum atkvæðum en Ísak Einar 210.

Segir stjórn Heimdallar hafa sett ógrynni fólks á lista sem ætlaði ekki á þingið

Ingvar Smári útskýrði hvernig hann fór að því að hljóta sigur í þessari kosningu. Hans stuðningsfólk hafði um 230 aðalsæti á þinginu en stuðningsfólk Ísaks Einars um 300. Varamenn eru svo skipaðir ef búið er að fylla aðalsætin.

„Eins og fram kom í fréttaflutningnum, um val stjórnar Heimdallar á listann þeirra, voru mínir stuðningsmenn í Heimdalli nánast allir útilokaðir frá því að fá aðalsæti á þinginu, en að því sögðu var þeim veitt varasæti. Ég tók þá áhættu að fá alla til að mæta á þingið, hvort sem þeir voru með aðalsæti eða varasæti, í þeirri von að fólk fengi að kjósa á sunnudeginum,“ sagði Ingvar.

Ísak Einar Rúnarsson.Aðsent
Hann sagði stjórn Heimdallar hafa sett ógrynni fólks á listann sem greinilega ætlaði sér ekki að koma á þingið til að byrja með. „Þess vegna endaði þetta þannig að það fengu allir varamenn, held ég, í öllum félögum á landinu að kjósa,“ sagði Ingvar og benti á að margir séu tilbúnir að mæta á þingið með þriggja vikna fyrirvara en síðan komi mögulega eitthvað upp á, til dæmis í tengslum við vinnu eða skóla.

Ingvar sagði sína upplifun af þessu landsþingi vera þá að formannskosningarnar hafi að mörgu leyti gengið of langt. „Ég held að það séu allir sammála um það, alveg sama hvorri fylkingunni þeir tilheyra,“sagði Ingvar.

Hann sagðist vera tilbúinn til að setjast niður með Ísaki og hans stuðningsmönnum og reyna að skoða hvernig hægt er að breyta lögum SUS með það að markmiði að menn geti tekið stóra slagi en þó innan þeirra marka að þeir breytist ekki í blóðbað.

Fylkingar ná langt aftur

Rifjað var um landsþing SUS árið 2009. Þá stefndi allt í að Fanney Birna Jónsdóttir, þá formaður Heimdalls, yrði ein í framboði til formanns SUS.

Degi fyrir kosninguna kom framboð frá Ólafi Erni Níelsen. Á kosningadaginn sjálfan var fimmtíu sæta flugvél tekin á leigu og stuðningsfólki Ólafs Arnar flogið vestur. Þátttökugjaldið var greitt fyrir þá og þeir gengu til kosninga. Hafði Ólafur Örn betur í kosningunni með 106 atkvæðum gegn 98 atkvæðum Fanneyjar Birnu.

Þáttastjórnendur Harmageddon minntust á það að það séu ávallt ákveðnar hreyfingar á bak við hvern formannsframbjóðanda SUS og sagðist Ingvar Smári í raun tilheyra þeim armi innan Sjálfstæðisflokksins sem stóð að baki Ólafi Erni.

Ingvar sagði mikið rætt um þessar fylkingar og það megi rekja þær línur mjög langt aftur. Hann tók þó fram að hann hafi byrjað í SUS tveimur árum eftir landsþingið 2009 og einnig Ísak og það eigi við um langflesta sem eru í þessum framboðum.

Þáttastjórnendur Harmageddon sögðu umræðuna um þetta landsþing SUS í ár ekki Sjálfstæðisflokknum til framdráttar og að þingið hafi ekki verið smekklegt.

Spurður hvort hans fylking hefði bókað allt flug austur mánuði áður en þingið var haldið á Eskifirði sagði hann hvort sig né sitt fólk hafa bókað flug áður en þingið var haldið. Hann var hins vegar með flugvél á sínum vegum sem flutti stuðningsfólk hans til Eskifjarðar á sunnudeginum.

Landsþing SUS var haldið á Eskfirði.Vísir/Pjetur
Útilokun stuðningsmanna vendipunktur í fjölmiðlaumræðu

Ingvar sagði nauðsynlegt að halda því til haga að umfjöllun um landsþingið hafi verið ágæt fram að þeim tímapunkti þegar stjórn Heimdallar ákvað að útiloka alla þá sem höfðu verið virkir í starfi Heimdallar og yfirlýstir stuðningsmenn hans.

„Þetta var algjör vendipunktur í allri fjölmiðlaumræðu, enda er það algjörlega fordæmislaust að fólk sem hefur setið í stjórn Heimdallar á síðustu árum, verið virkt í flokksstarfinu, mætt á SUS-þing, mætt á landsfundi og komið að stefnumótun flokksins, fái ekki að kjósa á SUS-þingi,“ sagði Ingvar og varð nokkuð ákveðinn þegar hann sagði:

„Og ég held að stjórn Heimdallar skammist sín fyrir þetta, enda reyndi hún í óðagoti að lagfæra stöðuna rétt fyrir kosningarnar, þó með ólögmætum hætti þannig að það þurfti að hafna breytingunum og ég fékk engin fleiri aðalsæti út á það. Fram að þessum tímapunkti var umræðan fín, eftir það breyttist hún að öllu leyti, enda var í raun og veru verið að reyna einhverskonar form af kosningasvindli á þeim tímapunkti. Það var verið að reyna að útiloka fólk sem studdi einn frambjóðanda.“

Ekki haldið í óðagoti

Hann sagði að vissulega væri meira af stuðningsmönnum sínum innan stjórnar Sambands ungra Sjálfstæðismanna sem ákvað að halda landsþingið á Eskifirði. Staðan sé hins vegar sú að félags ungra Sjálfstæðismanna í Fjarðarbyggð hafi óskað eftir því í þrjú ár að halda landsþing, og að slíkt þing hefði ekki verið haldið á Austfjörðum í tíu ár. Löng hefði sé fyrir því að halda landsþing SUS úti á landi.

„Það er fjarri því að þetta hafi verið haldið þarna í einhverju óðagoti að því markmiði að reyna að stela einhverjum kosningum. Ég gengst ekki við því að hafa staðið að einhverju kosningasvindli. Svo var ekki.“

Hann var spurður hver kostnaðurinn sé að baki formannsframboði hjá SUS og gekkst við því að hann væri einhver. Hann sagði frambjóðendur alla jafna hafa samband við fólk og fyrirtæki þar sem það er spurt hvort það vilji leggja framboðinu lið. Margir séu tilbúnir til þess sem hafa trú á því sem frambjóðandinn stendur fyrir.

Ekki náðist í Ísak Einar við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir

Leyndardómsfullir fólksflutningar í aðdraganda formannskosninga

Sjö ungir menn, sem allir bjuggu áður í öðrum bæjarfélögum, hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73 í Reykjavík í aðdraganda sambandsþings Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, sem haldið verður helgina 8.-10. september.

Fimm aðildarfélög SUS hyggjast segja sig úr sambandinu

Ingvar Smári, sem býður sig fram til formanns segir að "stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálf­stæðismanna í Reykjavík, sem leynt og ljóst styður framboð Ísaks Rúnarssonar, til formennsku gætti þess við val á lista sinn að útiloka þá frá þinginu sem ekki eru yfirlýstir stuðningsmenn hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×